FJAÐRAFOK er heimildamynd sem Krumma films framleiddi árið 2020 og fjallar um sögu Gleðigöngunnar í Reykjavík. Viðmælendur myndarinnar koma úr ýmsum áttum og sýnist sitt hverjum svo myndin líkt og Gleðigangan endurspeglar fjölbreyttar hliðar mannlífsins og rekur þá söguslóð sem troðin var með göngunum.
HÉR FYRIR NEÐAN má sjá í mynd flest viðtölin sem tekin voru fyrir myndina og lesa þau uppskrifuð líka. Vilji fólk vitna í viðtölin gilda almennar reglur um tilvísanir í heimildir. Vilji fólk nálgast upprunalegt myndefni og nota til annarra verka hafið þá vinsamlegast samband við Krumma films í netfang info@krummafilms.com
HÉR TIL HLIÐAR má einnig horfa á myndina sjálfa í gegnum Vimeo on demand.
KVIKMYNDUÐ OG UPPSKRIFUÐ VIÐTÖL
„Framvarðarsveitin í okkar baráttu voru dragdrottningarnar. Það voru þær sem stóðu hugrakkar, fremstar í baráttunni og voru barðar, var nauðgað, þær voru myrtar. Þetta er framvarðarsveitin, þetta er fólkið sem að var fremst á vígvellinum. Og ef við heiðrum þær ekki í Gleðigöngunni þá getum við gleymt þessu.”
„BDSM er langt frá því að vera tengt bleiku glimmeri. BDSM stereotýpan er miklu sterkari, miklu svartari, dimmari, grimmari, djöfullegri, en sko hún er jafn röng og hún er djöfulleg.”
„Nú fáum við að reyna það á eigin skinni svona í ljósi sögunnar að þegar ákveðin öfl komast til valda sem hafa horn í síðu minnihlutahópa eða finna þeim allt til foráttu að þá verður að vera til einhvers konar skipulagður sýnileiki fyrir minnihlutahópinn og þeir sem tilheyra hópnum verða að fá staðfestingu á því að þau eigi sér bakland. Að það sé fjöldi.”