skip to Main Content

TRANS Á ÍSLANDI

Auðvitað var líka alltaf trans fólk á gay senunni og þótt Svona fólk fjalli aðallega um homma og lesbíur þá var ögn komið inn á þau mál með Elísu í fjórða þætti en einnig Transplosive frá 2006 og Fjaðrafoki frá 2020. Hér eru nokkur viðtöl við trans fólk tekin fyrir þessar myndir.

TRANSPLOSIVE er fyrsta íslenska kvikmyndin sem fjallar um málefni trans fólks. Hún var gerð í tilefni þess að á HINSEGIN BÍÓDÖGUM 2006 var ákveðið að fjalla sérstaklega um þann hóp, meðal annars í dagskránni en einnig var SUSAN STRYKER baráttujaxli og kvikmyndagerðarmanni boðið á hátíðina með nýja mynd sína SCREAMING QUEENS sem fjallaði um uppreisn trans kvenna í Kaliforníu fyrir tíma Stonewall. Málþing var haldið í Odda í samstarfi við Háskóla Íslands og FSS.

HRAFNHILDUR Gunnarsdóttir sem þá var formaður Samtakanna ´78 og stjórnandi Hinsegin bíódaga bað Höllu Kristínu Einarsdóttur um að gera stutta heimildamynd um stöðu mála á Íslandi til þess að héðan kæmi eitthvað á móti. Eftir nokkra leit að viðmælendum samþykktu þær Anna Kristjánsdóttir, Díanna Omel Svavars, Valdís Geirs og einn trans maður (í gegnum síma) undir dulnefninu Karl að taka þátt og deildu reynslu sinni.

TRANSPLOSIVE er vissulega barn síns tíma en veitir áhugaverða sýn á stöðu trans fólks á Íslandi árið 2005, rétt áður en mál þeirra komust í umræðu og TRANS ÍSLAND var stofnað (2007). Nafnið Transplosive kemur frá lestri tuga reynslusagna þar sem margir lýstu knýjandi þörf sinni á ýmsum aldri til að koma úr felum sem trans ellegar myndu þau springa. Myndin var einungis sýnd á Hinsegin Bíódögum 2006 og Skjaldborg 2007 en hér er hún loks gerð aðgengileg.

 

Transplosive plakat

TRANS

Back To Top