skip to Main Content

ÁSTFANGIN AF KONU

Þegar ég er komin í kennaraskólann þá töldu víst margir að ég ætti kærasta og þeir hafa kannski líka stundum haldið að við gætum gengið veginn saman. En alla jafna kom ég mér þá undan ef slíkt tal bar á góma að ég hefði ekki áhuga á að binda mig, ég ætlaði mér í frekara nám. Kannski hefur skólaganga mín verið túlkuð eins og ákveðinn flótti en auðvitað neita ég því. Þetta var ekki flótti. En síðasta dæmið sem ég get tekið er þegar ég er komin á íþróttakennaraskólann eftir kennaraskólann og þar varð eitthvert smáskot og þegar sá piltur fór eitthvað að ræða frekari framtíð okkar þá sagði ég að það kæmi ekki til greina því ég ætlaði mér í frekara nám. Ég ætlaði ekki að fara að binda mig, verða kona eins eða neins. Þá hafði það reyndar gerst að án þess að ég hefði kannski áttað mig á því þá ég var þá þegar orðin ástfangin af konu. Af skólasystur minni og það var gagnkvæmt og þá án þess þó að ég eða hún hafi hugsað um okkur sem lesbíur. Enda var þá eins og er núna ekkert tiltökumál að stelpur yrðu vinkonur og jafnvel leigðu saman. Það var ekki málið.

Úr viðtali við Nönnu Úlfsdóttur

Back To Top