FYRSTU SKREFIN
Árið ‘80, þá leigðum við litla kytru niðri í Garðastræti og þar var opið hús tvisvar í viku. Pínulitla og loftlausa kytru, niðurgrafna, galtóm, engin húsgöng þar. Félagið var alveg tækjalaust og það gekk ekki að leigja þetta lengi. Þannig að við urðum aftur húsnæðislaus og það var opið hús hérna heima [hjá Guðna Baldurssyni og Helga Magnússyni, á Flyðrugranda]. Þangað til að félagið fór upp á Skólavörðustíg ‘82 og síðan þá má segja að félagið hafi haft húsnæði og eigin síma. Það var mikil breyting. Þó að það sé nú merkilegt að síminn okkar væri auglýstur upphaflega þá urðum við fyrir afar litlu ónæði, það var mjög sjaldan sem fólk var leiðinlegt. Minna um það heldur en nokkru áður.
Það er svo skrítið. Ætli Samtökin ’78 hafi ekki verið með fyrstu félögum sem hafði svona símaþjónustu. Nú er þetta sjálfsagt að fólk í alls konar hugleiðingum, veit hvert þad á að leita. Getur tekið upp símtólið og hringt. Á þessum árum var ekki bara samkynhneigt fólk sem hrindi í símatímanum, heldur fólk í allskonar vandræðum. Með allskonar erindi, sem ég segi fyrir mig, ég var enginn maður til að leysa úr. Fólk sem var, menn sem voru í kynskipti hugleiðingum, ég var svo grænn að ég ætla að vona að ég hafi ekki skaðað neinn útaf því sem ég lét útúr mér stundum bara af forvitni, ég var svo undrandi. Og allskonar folk í allskonar hugleiðingum tengt þessu öllu saman. Hvert það er og hvað það er og hvað það vill. Það var ekki bara samkynhneigt folk sem hrindi heldur bara allskonar fólk. Þessi símatími hefur líklega verid langt, langt á undan sinni samtíð.
Spyrill: Eitthvað var rætt um mögulegar hleranir?
Já, við höfðum það á tilfinningunni. Okkur fannst stundum eins og það væru smellir í símanum. Það var það sem við höfðum fyrir okkur. Dálítið mikið undarlegir smellir. Hvað það var meira það veit maður ekki neitt. Svo líka á þessum árum vorum við sem og aðrir svo ofur varkárir í þessum málum.
Úr viðtali við Guðna Baldursson og Helga Magnússon, 1997