skip to Main Content

ÚR FELUM

Það er eitt sem mér dettur í hug en það er um þessa staðalímynd af lesbíu. Þegar þú spyrð um þetta –  þegar ég ákvað að koma úr felum … ég bara gat ekki meir. Leikritið var búið að ganga of lengi og það var bara tímabært að ganga fram á sviðið og láta klappa fyrir sér. Ég sagði fyrst systur minni frá þessu, yngstu sem býr úti í Englandi og það var mjög einfalt og auðvelt og ekkert kom henni á óvart. Síðan hóaði ég á systkini mín heim í Álfheima þar sem við Jónína bjuggum og sagði þeim bara frá þessu að ég ætlaði að segja þetta upphátt og það var held ég ekkert sem þeim kom á óvart en þó sagði nú ein systir mín: Hva, þarftu eitthvað að vera að þessu? Nú síðan held ég að það hafi dálítið farið fyrir mér eins og flestum alveg óháð hvað þeir eru gamlir þegar þeir gera þetta. Maður fór á ákveðið flipp sko. Og þá allt í einu stóð ég frammi fyrir því að mér var vel tekið og síðan kemur viðtal við mig í Nýju lífi og það voru ýmsir sem ég hafði ekki heyrt í eða séð lengi eða ekki jafnvel heilsað sem viku sér að mér og óskuðu mér til hamingju. Í þeirra hópi voru jafnvel þingmenn sem að höfðu setið á þingi þegar ég vann hjá útvarpinu. Þar sá ég mikið um þingfréttir eða annaðist þær. Nú gamlir skólafélagar og ég veit ekki hvað og hvað og hvað. Aðrir urðu kannski aðeins undrandi og einn gamall skólabróðir minn sem var með mér á Reykjaskóla hafði samband við mig og sagðist bara ekkert trúa þessu að ég væri lesbía og já, lesbíur væru ekki svona. En á heildina…maður er aðeins svona … þó stofnun Samtakanna ´78 hafi farið fram hjá mér þá er það þarna líka sem ég leita til þeirra og fékk liðsinni og vel tekið við mér, á móti mér. Og þá hins vegar þá horfðist ég í augu við nýtt fyrirbrigði þar að hverjir horfa til manns að þar voru allt í einu ýmsar stúlkur eða konur farnar að líta á mann eins og strákarnir höfðu gert og það var auðvitað ákveðin nýlunda, sem að kannski viðhélt þessu flippi sko. 

Back To Top