skip to Main Content

EKKI EINN Í HEIMINUM Á BÓKASAFNINU

Náungi sem ég varð ástfanginn af hvatti mig til að fara upp í Samtökin ‘78, þótt það væri ekki nema bara til að kíkja upp á bókasafn og byrja að grúska. Af því að það mega þau eiga að þau hafa alltaf rekið ofsalega gott heilbrigt bókasafn með öllum þeim litteratúr sem þú vilt og tímaritum sem er mjög gaman að grúska í. Það er eiginlega, þegar þú ert að hugsa um svona huglæga hluti og ert að fara í gegnum rosalega sjálfskoðun … hver er kynhneigð mín, skilurðu, þá geturðu ekki fundið rétta svarið og þú getur ekki nálgast innsta hringinn nema í gegnum skáldskap. Eða litteratúr annars fólks eða tónlist eða kvikmyndir eða eitthvað svoleiðis. Það er alla vega þannig sem ég lít á það. Þannig að áfram bókasafn Samtakanna ‘78! Þar geturðu fundið þær bíómyndir sem þú þarft að horfa á og lesið þann litteratúr og blaðað í þeim blöðum sem eru gefin út á þeim tíma, bara maí 1986, þannig að þú bara fáir það ekki á tilfinninguna að þú sért einn í heiminum. Og það er þarna uppi á bókasafninu sem ég fatta að það er heilt samfélag í gangi sem ég er að missa af. Bara do you know the way to San Jose. Þannig að ég stökk um borð og fór að afla mér upplýsinga og var síðan ekkert smá til í tuskið þegar ég kem út fyrir fjölskyldu og vinum. Það var fólk í eldri kantinum sem var búið að segja mér það að þegar þú kemur út að þá verðurðu að vera tilbúinn að svara spurningunum sem þú verður spurður að, því þú verður spurður að helvíti mörgum spurningum. Ég vildi ekki springa á limminu og undirbjó mig helvíti vel og ráðlegg öðru fólki sem er að koma út að undirbúa þetta a.m.k. að einhverju leyti.

Páll Óskar Hjálmtýsson, 1997

Back To Top