skip to Main Content

FYRSTU DAGARNIR SEM FORMAÐUR SAMTAKANNA

Ég byrjaði á því að skúra niðri í húsi, ekki af því að það væri svo mikil þörf á því í sjálfu sér en það er best að byrja á smáverkunum. Ég byrjaði síðan á því að fara ofan í hvern einasta pappakassa og plastpoka sem ég fann, ég fann þá víða, og leita uppi skjöl Samtakanna hér og þar allt frá upphafi og skjöl allt frá fyrir stofnun Samtakanna 78. Þ.e. frá Iceland Hospitality-tímanum og ég eyddi vikum í að fara í gegnum þessa pappíra til að reyna að skilja við hverju ég væri að taka. Ótrúlega merkilegt verk. Og nú ætla ég að segja það sem ég hef oft áður sagt og mun segja með gleði mun oftar hvar sem ég fæ því viðkomið. Það er að ég tek ofan fyrir forverum mínum. Ég tek ofan fyrir þessu fólki sem hefur unnið í gegnum tíðina. Því hafi mér þótt ýmislegt blasa við og margt sem ég vildi gera og koma áfram þá biðu þeirra björg að hreyfa og þau höfðu hreyft það. Ég dáðist að elju og atorku þessa fólks sem hafði rutt brautina og opnaði. Allt fólkið og allir einstaklingarnir sem ég fann í þessum pappírum og öllum þessum rykföllnu skjölum sem nú er komið snyrtilega inn í möppur í hillu hjá Samtökunum 78. Þetta var ævintýri líkast, þetta var eins og gulluppgröftur, þetta voru fyrstu vikurnar mínar að skilja og átta mig á því – þetta voru verkefnin sem þau fóru í gegnum. Þetta voru verkefni þeirra tíma og þau höfðu komist svo og svo áfram og hvað beið okkar sem voru að taka við.

Margrét Pála Ólafsdóttir, 1997

Back To Top