skip to Main Content

KONURNAR Í FORGRUNN

Já, það hefur náttúrulega verið staðfest í ýmsum frásögnum svona eldri kynslóðarinnar innan Samtakanna [’78] að það voru ekki margar stelpur til að byrja með. Og ‘87 þegar ég kem á vettvang að þá er þetta fyrsti fundurinn eða fyrsta skemmtunin sem ég fer á er á vegum Íslensk – lesbíska niðri í kvennahúsunum niðri í Hlaðvarpa. Þá voru þær ennþá aðeins virkar en það var nú svona að fjara út. Og sjálfsagt eru nú einhverjir búnir að segja söguna af því litla hliðarfélagi sem var til svona fyrir utan Samtökin því að lesbíurnar náðu ekki fótfestu, eða voru ekki velkomnar eða eitthvað en það er fyrir mína tíð sko svo ég þekki ekki þá sögu. Þetta var svona handfylli af kerlingum á ýmsum aldri sem að maður hitti þegar maður fór að koma niður í Samtök. Þetta svona rúmaðist við eitt gott borð svona, kannski tíu, tólf kerlingar og flestar búnar að vera hver með annarri (hlær). Æ ég segi það ekki, þú veist þetta er náttúrulega ofboðslega lítill heimur sko, við vorum ekki mjög margar. Og hérna, við vorum samt svolítið að stússast í því að búa til einhvern svona kvenna niche innan félagsins, vorum með kvennakvöld og ég man að um tíma eftir að einhverjar af þessum stelpum komu heim frá Bandaríkjunum og Kanada þá voru svona, ekki eins og AA-fundir beinlínis en svona þú veist, svona umræðukvöld eða þar sem við sátum og deildum með okkur svona alls konar og það var nú rosalega gott.

[…] Þannig að við vorum nokkrar svona aðeins að reyna að virkja svona kvennastöðuna, ég held að það hafi nú gengið alveg bærilega. Svo auðvitað annað sem gerist á þessum tíma frá áttatíu og eitthvað til níutíu og eitthvað, það er auðvitað að strákunum fækkar, af ja ekki eðlilegum orsökum en þeim fækkar því þeir eru veikir. Og þeir deyja. Þannig að það var á þessum tíma held ég að sé hægt að segja sko að konurnar stigu þarna inn dálítið í „frontinn“. […] Á þessum tíma eru t.d. þrjár konur sem verða formenn; ég og Guðrún Gísla og Magga Pála. Og konur eiga þarna dálítið langan tíma í forgrunni og í svona þessari pólitísku vinnu útávið […]

Já ég meina mér fannst ágætis starfsemi miðað við hvað þetta er lítið félag en auðvitað var, það var, það var kannski dálítið áfengisvesen sko […] þetta er líka brotinn hópur og hann auðvitað bara, hann varð að fá að lifa eins og hann gat. En ég myndi segja að þessi tími þarna sko hafi verið dálítill svona „konutími“ í Samtökunum. Ég held að þær hafi þá endanlega fest sig í sessi. Bæði innanhúss í félaginu og líka í frontinum.

Lana Kolbrún Eddudóttir, janúar 2017

 

 

Back To Top