skip to Main Content

RAUÐHÆRÐAR GRÆNMETISÆTUR Í NEFND

Formaður nefndarinnar reyndi hvað eftir annað að finna samanburðarhóp í þjóðfélaginu og heiminum. Ég man eftir gyðingum sem voru þá teknir sem mögulegur samanburðarhópur og ég man eftir grænmetisætum. Gyðingarnir voru þó fæddir svona, grænmetisætur, ég veit ekki hvort maður er fæddur til þess að vera grænmetisæta? Það er önnur saga. Og það voru einhverjir hópar sem voru taldir upp og rætt af hverju þeir væru það eða væru ekki. Þessi umræða átti bara ekkert að vera til. En hún var þarna. Svo er það einn daginn sem nefndarmaður, kona, kom aðeins of seint og þetta spjall er í gangi eina ferðina enn. samanburðarhópsspjallið. Hún kemur og sest beint á móti mér og ég segi við formanninn: Ég er búin að finna samanburðarhópinn. Hann situr þarna. Þessi kona, mér þótti vænt um hana, hún var ekki slæm bara svona sem manneskja. Hún hafði heyrt umræðuna og sumir hefðu nú hrokkið í kút hvort það ætti að fara að væna hana um eitthvað ljótt. En hún sat þarna keik og brosti og já sagði hún, það er rauðhærða fólkið. Það er samanburðarhópurinn. Þá föttuðu sumir af nefndarfólkinu hvað þetta er hallærisleg umræða. Ég sagði: þið eruð fædd svona, þið lendið fyrir aðkasti, ég meina þið getið reyndar litað á ykkur hárið en það vex aftur. Við getum reynt að fara í felur en við þurfum að koma út og upp úr því þá var þessi umræða búin.

[…] Ég veiktist svo og þurfti að fara í uppskurð og vildi vera viss um að þarna gæti einhver mætt. Ég vissi að ég gæti ekki mætt svo Lana Kolbrún tók við og hún og Guðni eru með margar athugasemdir og eru ekki sammála nefndarálitinu. Og ef þið hafið það í huga þá getiði ímyndað ykkur hvernig þessi nefnd var þegar hún byrjaði. Það var ekki gaman. Það var valið fólk úr, dómsmálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og formaðurinn ofan úr háskóla. Ég get ekki ímyndað mér að það hafi neitt verið athugað um viðhorf þessa fólks til samkynhneigðra fyrst. Þau höfðu ekki gert sér mikið af hugmyndum, jákvæðum eða raunhæfum hugmyndum um samkynhneigða. Þau vissu ekkert. Þau voru með fordóma. Það hefði verið betra að kíkja á ráðuneytin og spyrja: er einhver hér sem getur hugsað sér, vegna þess að þú hefur gert þér hugmyndir um og finnst að eigi að kíkja á réttindi homma og lesbía? Ég hef ekki trú á því. Það tók svona langan tíma að setja þessa nefnd vegna þess að það voru svo miklir fordómar. Það vildi enginn gera það. Það vildi enginn hafa fingurna í þessu. En svo var þeim ekki stætt á að bíða lengur vegna þess að það var liðinn svo langur tími. Löggjafarmátturinn við Austurvöll hafði sagt að þetta ætti að gerast.

Guðrún Gísladóttir, 2000.

Back To Top