skip to Main Content

ÞAÐ BRAST Á MEÐ ALLSKONAR KYNHNEIGÐ

Þessi þáttur, Í sannleika sagt, var á Ríkissjónvarpinu. Og kannski er fyrsta stóra sýnileikadæmið á sjónvarpi allra landsmanna. Og þetta system það er fólk í sal og fólkið í salnum eru bara hommar og lesbíur og pabbar þeirra og mömmur. Svo er panell þarna og einhverjar fjórar, fimm manneskjur, þar á meðal ég og mamma á lillablárri blússu. Mér fannst ég vera að fara í bara eins og hvert annað viðtal. Maður setti sig í smástellingar. Maður var alltaf svona ef ekki militant þá a.m.k. svona, var ekkert að láta rugla neitt með sig. Mér fannst mjög gott að ræða við þau bæði. Sérstaklega fannst mér Vala standa sig vel í að undirbúa. Maður var náttúrulega pínulítið skelkaður en hún gerði þetta mjög vel og þau bæði. Og svo fer þetta bara í loftið […] og landið bara, landið og miðin, það var bara allt í uppnámi. Bara VÁ, það hafði ekki verið bara ein lesbía til sýnis heldur einhver hrúga af fólki. Alls konar og foreldrar og fólk skammaðist sín ekki neitt, var bara þarna til sýnis eins og ekkert væri.

Ég er ennþá tuttugu og eitthvað árum síðar að hitta konur sem að upplifðu sko eldinguna þegar þær horfðu á þennan þátt. Þær, hvort sem þær voru 15 ára eða 12 ára eða 25 ára, hugsuðu bara já, þarna er ég! Þetta er ég! Þarna er fólkið mitt! Þannig áhrif hafði þessi þáttur. Hann setti okkur á kortið. Allt í einu vorum við til. Og það þarf enginn að segja mér að svona þáttur á þessum tíma, þegar það eru engar upplýsingar, hafi ekki líka hjálpað til í sambandi við allt sem á eftir kom, að staðfesta samvist og allt þetta sem þó var gert til að bæta okkar stöðu. Af því að á einu augabragði áttu allar stórfjölskyldur á Íslandi allt í einu sinn homma eða sína lesbíu. Það brast á með allskonar kynhneigð í landinu bara eins og það kæmi vor. Það var stórkostlegt.

Lana Kolbrún Eddudóttir, janúar 2017

Back To Top