skip to Main Content

TABÚ Í RAUÐSOKKAHREYFINGUNNI

Það er mjög sérstakt hér á landi. Rauðsokkahreyfingin er stofnuð 1971 og er öflugasta kvennahreyfingin hér á landi alveg þangað til Kvennalistinn er stofnaður. Þetta [að vera lesbía] var algert tabú í þeirri hreyfingu, öfugt við það sem gerðist í sambærilegum hreyfingum, bæði austan hafs eða í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar voru það einmitt lesbíurnar sem voru að koma úr felum sem urðu oft afgerandi í kvennabaráttunni. Að þetta fylgdist að – þetta kvenfrelsi og að vera þær sem þær eru. […] Ég veit ekki hver skýringin er. Ég veit það reyndar að margar konur af þessari kynslóð sem voru lesbíur þær fluttu úr landi. Þær bara fóru til t.d.  Kaupmannahafnar og eflaust fleiri staða sem maður veit ekkert um. En ég veit til þess að það komu upp umræður bæði innan Rauðsokkahreyfingarinnar og Kvennalistans seinna, að taka fyrir málefni lesbía og það fékkst ekki í gegn fyrir einhverri hræðslu. Ég get nú ekki alveg skýrt út af hverju hún stafar. En þetta er það sem mín kynslóð bjó við. Kynslóðin á undan kom ekki úr felum opinberlega. Það þarf ekki að segja manni að það hafi ekki verið lesbíur í þeim hópi eins og öllum öðrum kynslóðum. […] Ég man eftir einu blaði sem hét Forvitin rauð sem fjallaði um kynlíf og þar var viðtal við lesbíur og ég man alveg eftir tilfinningunni þegar ég las það. Það skipti mig miklu máli sko, það rofaði til smátt og smátt. Maður fékk skilaboðin svona óljóst að þetta væri nú til.

Úr viðtali við Elísabetu Þorgeirsdóttur 1997

Back To Top