skip to Main Content

ÞRÍR STÓLAR OG EITT BORÐ

Aðal deiglumálin hjá Samtökunum ’78, það var bara að koma úr felum. Að þurfa ekki að vera að læðupokast einhvers staðar og fá ekki að vera þessar manneskjur sem þau voru og þetta voru bara þessu litlu skref sem að voru stigin þá. Þetta byrjaði bara á lítilli kaffistofu þar sem að ég held að hafi verið þrír stólar og eitt borð sko. Og það skipti engu máli. Bara fólk kom og hittist þarna og já síðan bara átti þessi ákveðna framvinda sér stað og það þurfti ekki að vera annað en að vera málaður úti á götu eða snerta annan karlmann, það þurfti ekki meira tilefni til að þá eru bara hommar lamdir til óbóta en sem betur fer þá er nú þetta liðin tíð að ég held.

Nei ég svei mér þá ég held bara, nei ég get einhvern veginn ekki skilgreint eitthvað þrúgandi, mér fannst vera of mikil gleði þarna á svona, þarna voru allir á fleygiferð að koma út úr skápnum og svona samfélagið var svona að taka við því. Þetta voru svona smá skref út á við og menn voru og fólk að fikra sig áfram hvað mátti og hvað mátti ekki, svona finna hvar grensurnar lágu og þetta fór þá aðallega fram á svona almennum böllum, á dansleikjum eins og Óðali og Borginni og eitthvað svona, hvað mátti ganga langt í að dansa saman og daðra og kannski snertast eða leiðast eða, það var svolítið hættulegt ef karlmenn voru að kyssast sko, það var bara ja það var glötunin alveg sem þú gast steypt þér í sko, kallað yfir þig ja verulegar afleiðingar. Og ekki þá bara að vera hent út af ballinu sem var nú slæmt en, það gat haft ofbeldi í för með sér.

Hulda Waddell 2007

Back To Top