skip to Main Content

ALNÆMIÐ OG HIÐ OPINBERA

Það sem gerði það að verkum að ég fór að starfa við þetta [sem alnæmisráðgjafi] var að þegar þetta var að koma upp, þá fór ég í alnæmispróf, bara með fyrstu mönnum, og talaði í framhaldi af því við Helga Valdimarsson prófessor í ónæmisfræðum. Hann var þá með þessi próf og ég ræddi við hann um Samtökin [’78] og gay-liðið hér á landi og það yrði eitthvað að gera í þessu. Ég hitti Helga í nokkur skipti og bað hann um að koma upp í Samtök og fjalla um þennan sjúkdóm sem hann gerði.

[…] Í framhaldi af því að þá bjó ég til bækling um hættulaust kynlíf. Venjulega er svona búið til af opinberum stofnunum – einhverjum sérfræðingum – og ég man eftir því að ég þýddi þetta heima og þetta var sett á A4-blað sem var brotið saman og ljósritað og dreift. Og þannig varð fyrsti bæklingurinn til og út frá þessum samskiptum við heilbrigðiskerfið fékk ég smástarf við þetta, svona hálfsdagsstarf. Mjög óskilgreint starf […] og ég var í þessu starfi í sjö, átta mánuði og var ekki vanþörf á. Bara að ræða þetta niðri í Samtökum, útbúa bæklinga og dreifa þeim til hommanna og veita svo fræðslu um þetta fyrir þá sem óskuðu eftir því og en ég kom svona lítið nálægt þeim sem voru smitaðir. Ég þekkti bara suma og spjallaði við þá sem vini og kunningja en það var mjög lítið í starfinu sem snéri beint að þeim.

[…] Þetta var svona töluverð barátta að fá heilbrigðiskerfið að ræða við okkur og þetta starf var svona – mjög mikil læti í kringum þetta og hérna milli þá okkar [í Samtökunum ’78] og landlæknis… en samt alltaf samband og þessi tengsl líka gerðu það að verkum að við vorum bara allt í einu orðin einhver stærð í samfélaginu sem varð að fara ræða við og taka tillit til og hérna reikna með. Það var út frá þessum vaxtabroddum sem að alþingismenn fóru svo að tala við okkur […], svona einn af öðrum og þá byrjaði svona virkilega þessi réttindabarátta.

Böðvar Björnsson, 2004

Back To Top