skip to Main Content

EINS OG HEILDSÖLUFYRIRTÆKI

Árið 1986 stofnuðum við Íslensk-lesbíska sem var auðvitað mikilvægt skref. Þannig var að við tókum okkur saman nokkrar lesbíur og ákváðum að stofna okkar eigið félag og sækja um aðstöðu í kvennahúsinu Hótel Vík sem að var þá aðsetur fyrir Kvennaframboð, Kvennalistann og kvennasamtök og okkur fannst það bara mikilvægt baráttumál að gera okkur sýnilegar innan kvennahreyfingarinnar.

[…] Ég er sannfærð um að það skipti miklu máli að við sóttum um að fá að koma þarna inn. Það var í fyrsta skipti sem konurnar í húshópnum á Hótel Vík þurftu að takast á við það að lesbíur ætluðu að fara ryðjast inn í húsið. Þær urðu margar hræddar og sáu fyrir sér kannski einhverja ímynd af leðurklæddum lesbíum eða eitthvað sem þær vissu ekkert hvað var. Og ég veit það að þetta olli miklum titringi og þurfti talsverð átök og fleiri en einn fund en sem betur fer voru okkar konur þar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hún var nú þarna í húshópnum og var sigld kona. Hafði séð lesbíur í Kaupmannahöfn og var óhrædd. Og fleiri konur. Þannig að við fengum herbergi á Hótel Vík og vorum þar með starfsemi. Hittumst og töluðum saman um okkar málefni og höfðum mjög gott af því og urðum sýnilegar að því leyti að á dyrunum var komið upp skilti yfir þau samtök sem voru í húsinu og þar stóðum við.

Okkar fallega nafn, Íslensk-lesbíska, var nú fundið upp á einum fundinum kannski í einhverju djóki, að þetta væri eins og eitthvert heildsölufyrirtæki.  Það var Ragnhildur Sverrisdóttir blaðamaður sem kom með þessa hugmynd og við bara samþykktum hana allar. En ég veit það að á þessum árum þá var málefnið nú ekki orðið þekktara en það það komu oft sendlar frá Alþingi með ýmsa pappíra [til Kvennalistans] og einhvern tímann sagði sú kona sem gegndi því starfi þegar hún kom inn á Hótel Vík að hún gæti ekki hugsað sér að bera póstinn frá Alþingi inn í þetta hús sem þetta nafn stæði á hurðinni. Hún gæti bara ekki opnað hurðina og farið þarna inn. Þannig að þetta er svona smá dæmi um viðhorfið í þjóðfélaginu. Sem betur fer hefur mikið breyst síðan.

Úr viðtali við Elísabetu Þorgeirsdóttur

Back To Top