skip to Main Content

ALNÆMIÐ SUNDRAÐI OKKUR

Enginn vissi nákvæmlega hvernig þetta myndi smitast og svo þurfti maður að vinna sjálfur í því gagnvart sínum vinum sem maður vissi að væri smitaður. Væri óhætt að kyssa þá bless? Allir voru að kyssast mikið á þessum tíma í samkynhneigðu fjölskyldunni. Maður þurfti að komast yfir það, væri allt í lagi að kyssa einhvern sem maður vissi að væri orðinn smitaður? Og síðan byrjuðu strákarnir að deyja bara skömmu seinna og þetta var bara auðvitað rosalegt áfall. Og að mörgu leyti kunnum við ekki að höndla þetta nógu vel fannst mér í samfélaginu. Við sundruðumst svolítið, hommar og lesbíur, og það er alveg eðlilegt þegar maður fer að hugsa til baka. Þegar dauðinn er allt í einu kominn bara inn í fjölskylduna og enginn veit neitt þá kemur upp hræðsla og taugaveiklun. En þetta var bara alveg ægilegt áfall og síðan byrjuðum við að reyna að vinna í fræðslu. Við vildum fá að vita um smitleiðir og byrjuðum af veikum mætti að reyna að standa að einhverju slíku. Og það var nú eiginlega undanfari alnæmissamtakanna held ég. En það var í rauninni í fyrsta skipti sem samtökin fengu fjárstuðning, það var eftir að alnæmið kom til sögunnar. Það kom snemma í ljós að við stelpurnar værum tiltölulega öruggar og þyrftum ekki að óttast smit og þá var eins og strákarnir lokuðu sig af og við komumst ekki að þeim að vera með þeim í því að takast á við þetta. Um svipað leyti ákváðum við að stofna okkar eigin félagsskap og kannski var það bara gott, að fara aðeins í burtu af því að það tókst ekki að við tækjum saman höndum og mundum byggja upp eitthvað svipað eins og var að gerast í öðrum löndum – byggja upp stuðningshópa eða eitthvað svoleiðis sem okkur langaði að gera. Við bara kunnum það ekki. Þannig að árið 1986 stofnuðum við Íslensk-lesbíska sem var auðvitað mikilvægt skref líka.

 

Back To Top