skip to Main Content

EKKI BARA SJÚKDÓMUR HOMMA

Það var alltaf erfitt að fá fólk til að starfa í stjórn Alnæmissamtakanna og hérna og vinna þar. Mér fannst það nú bara alveg sjálfsagt mál og var þarna, starfaði í stjórn Samtakanna í tvö ár ’91, ‘92 og það litla sem maður gat gert þá á þeim vettvangi það var að útdeila smá peningastyrk til hérna svona nauðþurfta hinna smituðu sem voru orðnir svo veikir að þeir voru bara heima og gátu ekki hérna, brauðfætt sig og voru bara komnir úr leik í þjóðfélaginu og biðu bara eftir því að deyja þannig lagað. Og eina sem maður gat gert var bara að styðja þetta fólk á einhvern mjög máttvana hátt, ekki nema þá bara að vera áfram vinur þeirra og sinna því á manneskjulegan hátt. Því að eftir stóðu þessir einstaklingar ansi einangraðir og allir farnir frá þeim. Höfðu kannski aldrei haft góð tengsl við fjölskylduna. Ekki komnir út með sína samkynhneigð, því síður að þeir væru smitaðir af þessum dauðasjúkdómi og já þannig að þarna stóðu menn bara einir og slyppir og snauðir, enginn á bak við þá. En sem betur fer var þetta nú ekki í öllum tilvikum. Það voru líka aðrir sem áttu mjög góða að.

Þegar ég var, starfaði í stjóm Alnæmissamtakanna þá var alveg viðstöðulaus fjárskortur. Þessi samtök áttu engan pening og það var eiginlega Rauði krossinn má segja, hann hélt uppi Alnæmissamtökunum. Svo við í stjórninni við vorum að reyna að finna upp á eitthvað til fjáröflunar og okkur datt í hug að halda fjáröflunartónleika í Þjóðleikhúsinu og það tókst, fengum Þjóðleikhúsið og fullt af hljómsveitum. Þá fann maður fyrir þessari velvild sem að allt í einu var sprottin upp í samfélaginu. Það var ekkert mál að fá Þjóðleikhúsið ókeypis, fullt af hljómsveitum í Reykjavik gaf vinnu sína og svo komu einhverjir peningar út úr þessu. Kannski ekkert mikið en eitthvað, en þá fyrst fannst mér ég hérna finna fyrir þessari velvild því í svona litlu samfélagi, þetta snertir alla, það var hommi í hverri fjölskyldu og hann gat veikst, þannig að fljótlega komu líka upp svona aðstandendasamtök í Alnæmissamtökunum sem voru aðstandendur þeirra sem voru smitaðir og svo var líka kominn þessi raun á að þetta var ekki bara sjúkdómur homma, það voru líka konur að greinast með smit. Og það var líka áður en byrjað var að skima blóð, að þá voru líka blæðarar sem höfðu fengið sýkt blóð þannig að Alnæmissamtökin voru svona farin að verða þá svolítill þverskurður af hinu og þessu. Og ja mér fannst á þessum tímapunkti að þarna ákvað bara þjóðfélagið að snúa bökum saman, styðja þessa einstaklinga og smátt og smátt kom þetta. Og ég held að þetta hafi stutt baráttu Samtakanna ‘78. Ég er alveg viss um að þetta spilaði allt saman að þegar að þjóðin var svona komin yfír alnæmið að þá var bara hægt að taka upp allan hérna réttindapakkann fyrir samkynhneigt fólk. Já ég held það að þetta fléttaðist saman svo svona á hlaupunum.

 

Hulda Waddell 2007

Back To Top