skip to Main Content

PASSAÐI ALDREI INN

Nema það að svo koma líkflutningsmenn, þurfa að koma og sækja hann [Sigurgeir Þórðarson]. Og það var búið að pakka honum öllum inn, hann var allur í líni, við vorum búin að vefja hann inn í hvítt lak. Og ég man á þessum tíma það var nú oft búið að segja það að alnæmissjúklingar smita ekki eftir að þeir eru dánir. Þeir gerðu ekkert annað en að lyfta honum upp í börurnar og fara með hann út. Ég held það hafi verið hreinlega bara daginn eftir eða daginn þar á eftir, að þá kemur frétt á forsíðu, ég held það heiti DV,  Vísir eða eitthvað á þeim tíma, þar sem líkflutningamenn eru reiðir fyrir það að hafa verið kallaðir heim í heimahús og ekki látnir vita að þetta hafi verið eyðnisjúklingur sem þeir voru að sækja og þarna hafi þeir verið útsettir fyrir óþarfa áhættu. Og svo byrjaði boltinn allur að rúlla og við jörðuðum hann í kyrrþey og við syrgðum hann í kyrrþey þennan fallega unga mann sem að lifði svona stutt. Og svona líka stormasamt síðasta árið hans. Hann sagði stundum við mig: Veistu það, núna þegar það bara blasir við að ég er að deyja þá velti ég því svo mikið fyrir mér sko, ég hef aldrei almennilega vitað hvernig ég hef átt að vera. Mér finnst einhvern veginn eins og ég hafi aldrei passað neinstaðar inn. Eins og ég hafi alla tíð átt að vera einhvern veginn öðruvísi. En ég bara gat það ekki.

 

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir 2017

Back To Top