skip to Main Content

HRÆÐSLAN ÖLLU YFIRSTERKARI

Þetta var hræðilega erfiður tími í samfélaginu hér að eiga ættingja sem var að deyja úr þessum sjaldgæfa sjúkdómi. Hann var erfiður vegna fordómanna og hræðslunnar og hann var erfiður vegna þess að maður þurfti að fela sorg sína. Og syrgja hann í hljóði.

Stemningin í samfélaginu hún var vægast sagt alveg skelfileg. Og sérstaklega fyrir okkur sem vorum svona nálægt þessu. Við vorum allt í einu með þetta inni í stofu hjá okkur, þetta sem að hafði verið svo fjarlægt. Eitthvað sem var bara úti í San Francisco eða New York. Og kerfið var ekki að hjálpa okkur þarna. Þrátt fyrir allan þennan viðbúnað og undirbúning sem lagt var í á Landspítalanum þá reyndist svona erfitt að ná í gegnum þessa hræðslu og þennan mikla ótta.

Þessi ofboðslega hræðsla hún var öllu yfirsterkari. Og yfirsterkari öllu því sem hét upplýsingar, þekking, fræðsla, einhver tilfinningaleg tengsl. Og það sem kannski kynti undir svona hræðslu var þörfin fyrir að vera alltaf að tala um einhverja tölfræði, hversu margir voru smitaðir og hvað voru mörg ný smit sem greindust í þessum mánuði o.s.frv. þannig að þetta var svona hvað á ég að segja faraldursfréttir sem var ekki hjálplegt og hjálpaði ekki þessu. Af því þetta var banvænn sjúkdómur. Þeir sem voru að fá hann þarna voru bara bókstaflega dæmdir til dauða og þetta var bara, já það var einhvern veginn engin von. Þú varðst að gera það besta úr þessum mánuðum eða vikum sem þú áttir eftir.

 

                                                                                                                                                                                                            Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir 2017

Back To Top