skip to Main Content

ÞYRSTIR AÐ VITA MEIRA UM KYNLÍF SAMKYNHNEIGÐRA

Fólk þyrstir svo óskaplega í upplýsingar um kynlíf samkynhneigðra. Það var, og það er, í rauninni það fyrsta sem gagnkynhneigt fólk fókuserar á þegar umræðan beinist að samkynhneigðu fólki – kynlífið þeirra. Þannig að ég hugsaði: Ókei ef þau vilja fá svona rosalegar upplýsingar um kynlíf og aftur kynlíf þá er ég rétti maðurinn til að svara þeim Af því að ég trúði því að þegar ég væri búinn að svara þessari kynlífsupplýsingaþörf gagnkynhneigðra þá yrðu þeir leiðir á því og færu að snúa sér að einhverju öðru eins og t.d. músíkinni minni eða því sem ég hefði áhuga á. Ég eyddi fyrstu tveimur árunum mínum sem skemmtikraftur í að svara kynlífsspurningum. Í alvöru. Og ég fór víða sko. Ég var beðinn að halda fyrirlestra í öllum félagsmiðstöðvum og framhaldsskólum, viðtöl hér og viðtöl þar og ekkert mál. Þá bara lít ég á mig sem eitthvert útibú frá Jónu Ingibjörgu bara af því það var alveg geðveik þörf fyrir þetta upplýsingastreymi þegar ég kem út sem performer. Þá erum við líka rétt að skríða út úr þessari AIDS-paranoiu. Geturðu ímyndað þér, þegar ég er að koma út fyrir sjálfum mér 1986-1987, þetta var svona tímabil þegar fólk þorði ekki að þvo sér um hendurnar á almenningssalernum eða bara heima hjá sér því það hafði ekki hugmynd um eitt eða neitt, paranoian var þvílík. En veistu eitt, fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, og svo skrítið sem það kann að sounda þá getum við þakkað þetta upplýsingastreymi sem er búið að vera í gangi um samkynhneigð og kynlíf, við getum þakkað það alnæmisveirunni. Vegna þess að þegar alnæmið fór að skjóta upp kollinum, jafnandstyggilegt og það er, þá neyðist fólk til þess kannski í fyrsta sinn í mannkynssögunni að tala um kynlíf. Og ekki bara sitt eigið heldur annarra.

Úr viðtali við Pál Óskar Hjálmtýsson

Back To Top