skip to Main Content

UNGLINGSÁR Á AKUREYRI

 

Ung kona á Akureyri í menntaskóla með lítið barn um það bil að fara gifta mig í Akureyrarkirkju hjá séra Pétri og já að byggja. Taktu eftir því  – að byggja í blokkaríbúð! Á Akureyri og á Norðurlandi yfirhöfuð voru hugtök eins og lesbíur og leiguhúsnæði ekki til. Trúlega allt verið jafnókunnuglegt fyrir Norðlendingum. En þarna er ég 18 ára gömul og ég var að gifta mig af því að ég hafði orðið ófrísk og átti barn – og gott og vel, indæll maður, við vorum góðir vinir. Ég verð þó að segja sjálfri mér til hróss að ég hafði aldrei blekkt mig með því að ég væri ástfangin af honum.

Ég hélt einfaldlega að þetta fyrirbæri að vera ástfangin væri eitthvað sem að mér hlotnaðist ekki í þessu lífi. Ég hafði farið í gegnum það einhverjum árum áður þegar ég var enn yngri, 14, 15 ára gömul, og var sannfærð um það að ég væri öðruvísi en vinkonur mínar en ég vissi bara ekki á hvaða hátt. Ég hafði þó grun um það að það tengdist því að ég væri ekki eins mikil kona eða stelpa eða eitthvað slíkt eins og það er. Og ég var í gagnfræðaskóla Akureyrar, merkileg stofnun ef þú þekkir hana ekki, á þeim tíma og það var ein stúlka í þessum skóla sem var verulega frábrugðin öðrum. Hún gekk niður frá hjá gagnfræðaskólanum og snjóboltarnir dundu frá nokkur hundruð nemendum sem öskruðu á eftir henni tvítóla. Svo gekk sú saga á Akureyri að þetta væri bæði karl og kona. Tvítóla var hún kölluð … já og hún leit vissulega mjög karlalega út og ég reyndi að ímynda mér gæti verið að ég væri svona og ég man að ég grandskoðaði mig sem unglingur í speglinum hvort að það vottaði fyrir hárvexti hvort að röddin mín væri dimmri en eðlilegt gæti talist og svona en ég leit nú bara normal út, fékk brjóst og allt saman… þannig að ég afturvegði þann möguleika, […] væri ég eitthvað öðruvísi, það var þá bara þannig að ég væri eitthvað tilfinningatæpari en aðrir.

Margrét Pála Ólafsdóttir

 

Back To Top