skip to Main Content

ALNÆMI HEFUR FYLGT MINNI SÖGU SEM HOMMI

Það er svo merkilegt að alnæmi hefur í rauninni fylgt minni sögu sem hommi. Eg man að árið sem ég kom úr felum í Kaupmannahöfn bárust fyrstu fréttir um svokallað „hommakrabbamein“ í Los Angeles og San Francisco,  síðar í New York og við töldum víst að þetta væru enn einar ofsóknirnar á hendur okkur. Allir vita hvemig sú saga æxlaðist.

Ég man það að í fyrsta tölublaði blaðsins Úr felum sem Samtökin gáfu út árið sem ég kom heim þá er smápistill um alnæmi og einmitt verið að hæðast að málinu og taka það sem dæmi um enn einar ofsóknirnar á hendur okkur. En málið reyndist alvarlegra en svo og 1983 höfðum við okkar fyrstu fundi með heilbrigðisyfirvöldum um stöðu mála. Stuttu seinna dóu fyrstu hommarnir úr alnæmi og 1986 -1987 var sjúkdómurinn í algleymingi. Þá er ég orðinn formaður og í raun fór megnið af mínum kröftum,  fóru þessi ár í það að taka á alnæmismálum. Ég hélt stundum að alnæmismálin myndu gera útaf við okkur, þetta yrði endinn á okkar hreyfimgu. Sum árin fór ég í þrjár jarðarfarir fyrir hverja eina sem foreldrar mínir fóru á.

Það er skrítið að hugsa um allan þennan tíma sem við eyddum í ótta. Sem var svona ábót við þann ótta sem við höfðum hrærst í vegna kynhneigðar okkar. Allt í einu stóðum við í miðjum óttanum og hann snérist um eitthvað allt annað. Hann snerist um drepsótt sem beindist að okkur. Það var hollt að sjá fallega vini sína, þessa ungu og karlmannlegu pilta breytast í gamalmenni á tveimur til þremur árum, jafnvel skemmri tíma, detta út úr heiminum, vita ekki hvað þeir hétu, hvar þeir voru staddir, staulast um við hækjur, í hjólastól og eftir þetta hef ég aldrei vorkennt sjálfum mér. Það var eitt af því sem alnæmi kenndi mér, mér finnst eins og ekkert geti orðið verra. Og það var ekki bara óttinn við sjúkdóminn sem var að fara með okkur á þessum árum. […] öllu verra var, þegar frá leið, fjölmiðlaumræðan og óttinn sem af því leiddi. Óttinn við það að verða úthrópuð, útilokuð, stigmatíseruð, lenda í sömu stöðu og holdsveikir fyrri tíma. Einhvern tímann birti eitt síðdegisblaðið frétt um mann sem hefði kastað upp í strætisvagni og í framhaldi af því þurfti að sótthreinsa vagninn af alnæmisveiru sem allt í einu var farin að hlaupa endanna á milli í sama vagni. Ég man líka eftir því þegar hann Sigurgeir vinur minn dó. Hann var rétt um tvítugt. Hann var heimilisvinur, hommi, hugrakkur strákur. Hann tók lífíð svolítið geyst. Hann smitaðist og dó tveimur árum síðar. Hann dó í fanginu á mömmu sinni sem hagræddi honum og hringdi svo á líkflutningamenn. Þegar þeir komu og komust að því hvert banameinið var þá neituðu þeir að taka þann látna og flytja hann í líkhús. Og ég man þetta eins og það hefði gerst í gær.

Úr viðtali við Þorvald Kristinsson, 1997

 

Back To Top