skip to Main Content

FRELSUN AÐ VERA MEÐ FÓLKI SEM VAR EINS OG ÉG

Fyrsti maðurinn sem að kemur í opinbert viðtal var Hörður Torfason 1974 eða 1975, þannig að þá vissi maður um tilvist homma almennt. Þá er ég orðin tvítug þannig að ég er eiginlega eins og fornaldarmanneskja. Síðan þegar ég kom suður, var hérna í háskóla, þá vissi ég að hommarnir voru á Borginni og einhverra hluta vegna fór ég nú að hafa áhuga á að fara þangað en mér datt náttúrulega aldrei í hug að ég mundi sjá konu sem að væri lesbía. En samt var ég þá farin að átta mig á að ég vildi sofa hjá konum. […] Lesbíur eru varla til í sögunni fyrr en svo miklu seinna.

[…] Fyrsta viðtalið sem kom við lesbíur var 1981, þá var ég einmitt nýflutt hingað suður. Það var viðtal í Helgarpóstinum við tvær ungar stúlkur, Láru og Lilju og það var mikil opinberun fyrir mig að sjá það viðtal, fyrstu andlitin sem ég sá sem tengdust því að þetta væru konur sem svæfu hjá öðrum konum og eftir það fór nú eiginlega boltinn að rúlla hjá mér enda tími til kominn. Ég orðin 26 ára og það var mikil frelsun. Mikil lausn. Að geta farið að taka þátt í því að vera með öðru fólki sem að var eins og ég.

[…] Óðal var aðalstaðurinn á þessum tíma og maður fann nú svona ýmsa samkynhneigða strauma þar í gangi þó að það væri nú ekki opinbert. En það var auðvelt að hitta þar konur sem vildu sofa hjá öðrum konum án þess að það væri svo nokkurn tímann rætt sko. Og það fannst mér líka erfitt til lengdar.

Úr viðtali við Elísabetu Þorgeirsdóttur, 1997.

Back To Top