skip to Main Content

REIF SKÍRTEINIÐ SITT

Það kom þessi tillaga [árið 1993] um að breyta undirtitli Samtakanna úr Samtökin ‘78 – félag lesbía og homma á Íslandi yfir í Samtökin ‘78 – félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra á Íslandi, minnir mig það hafi verið. Og í forystu fyrir þessari tillögu var vinur minn og góður félagi af bókasafninu og úr skólafræðslunni og virkilega bara mikill lykilmaður í starfi Samtakanna til margra ára, Eysteinn. Hann var tvíkynhneigður eða skilgreindi sig sem tvíkynhneigðan. Og fleira fólk sem að var ekki tilbúið til að sætta sig við það að vera smættað niður í að vera samkynhneigt þegar það var tvíkynhneigt. Og tillagan hún var bara felld og ég skal alveg játa það að ég var ekki fylgjandi þessari tillögu. Ég vildi ekki láta breyta nafninu. Maður vissi bara ekki meira. Maður var bara enn þá í pínulítilli einangrun hérna uppi á Íslandi. Við vorum bara ennþá að hamast við að vera samkynhneigð og bara mega það. Svo Eysteinn og hans fólk klauf sig frá, sagði sig úr Samtökunum, Ég held að hann hafi, fór upp í pontu og reif skírteinið sitt, stofnaði Félagið með stóru effi sem að ég held að hafi verið bæði fyrir samkynhneigða og tvíkynhneigða. Ég veit ekki hvort það starfaði kannski í ár. Hann er, Eysteinn er betur til frásagnar um það en ég. En svo kemur auðvitað bara að því að þessir hlutir breytast innan Samtakanna og þessar skilgreiningar fara að streyma inn. Þessar nýju skilgreiningar og þú veist, við áttum ennþá eftir að díla við trans, til dæmis. Ég meina það var ekki komið á dagskrá, það var enginn að tala um það. Þetta var bara, við vorum pínulítið svona að koma úr torfkofunum.

Lana Kolbrún Eddudóttir 2017

Back To Top