STJÖRNURNAR Á MOULIN ROUGE
Ég var einmitt nýbúinn að vera í Rocky Horror, gerði Frank N’ Furter í Rocky Horror í Iðnó. Leikfélag MH leigði Iðnó og Kolbrún Halldórs leikstýrði og það var algert kikk. Hver einasta sýning var alger sprenging og hún ómar eins og sprenging í hausnum á mér enn þann dag í dag. En svo kom að því að allir vissu hver ég var og allir vissu að ég var gay og hvað áttum við að fara að gera? Og þá kemur Maríus í heimsókn. Maríus besti vinur minn í heiminum og reyndar erum við Maríus svolítið líkir að mörgu leyti, fólk á það til að rugla okkur saman og svona og það erum eiginlega bara við tveir sem að vitum hvernig við skynjum hvorn annan. Maríus síðan kemur í heimsókn til mín þegar ég bý á Laugaveginum, alveg óður og uppvægur með honum Gísla og segir, honum lá svo mikið niðri fyrir, heyrðu, við erum að fara að búa til stað. Og Maríus ætlar að fara að bjóða mér vinnu að gera það skemmtilegasta sem ég get gert á jörðinni. Og ég svona: Hvað er það? Búa til bíómyndir? Æðislega tregur eitthvað.
Þá var sem sagt Maríus fenginn að vera skemmtanastjóri yfir stað sem var þá tiltölulega niðurníddur og átti sér skringilega sögu. Þetta er staður sem var nálægt Hlemmi og var búinn að ganga undir ýmsum nöfnum. Uppi og niðri og Keisarinn og eitthvað og hafði hýst skemmtiatriði eins og PAN-hópinn víðförla sem panaðist alveg útum allar trissur á nærhöldunum. Þetta hreysi fengum við til að stofnsetja fyrsta algerlega samkynhneigða skemmtistaðinn á Íslandi, Moulin Rouge. Við vissum það alveg frá fyrsta degi að þetta yrði gay skemmtistaður, diskótek, bar og til þess að trekkja fólk þá urðum við að standa fyrir einhverjum show-um. Og Maríus var bara allt í öllu. Þetta var Maríus, Gísli og ég sem vorum aðaldriffjaðrirnar á svæðinu. Ég kom inn í þetta síðastur allra nema hvað við þurftum eiginlega að gera allt frá því að ráða fólk í vinnu og vera stjörnurnar á staðnum og síðan skúra eftir okkur sjálfir. Þetta var alveg rosalegt stuð og stuðið náði síðan hámarki sumarið 1991 þegar við héldum ungfrú þokka-keppnina sem er fyrsta dragdrottningafegurðarsamkeppnin á Íslandi svo að við vitum til. Dragdrottningar urðu allt í einu þekkt stærð í íslensku skemmtanalífi og allt í einu varð bara útaf okkur hálfgert dragæði á Íslandi.