skip to Main Content

LESBÍA AFTUR ORÐIÐ SKAMMARYRÐI

Ég er nú búin að heita allskonar nöfnum þú veist, kynhverf og kynvillt og samkynhneigð og öll þessi orð sem er alltaf verið að búa til til að reyna að finna eitthvað settlegra einhvern veginn til að lýsa tilveru minni. En þessi orð  lesbía og hommi, við börðumst svo fyrir því að nota þessi orð og snúa þeim úr skammaryrðum yfir í eitthvað jákvætt þannig að þau eru fyrir svo marga svo mikils virði, sem lýsing á sjálfsmynd.

Og svo er svo skrítið að upplifa það á ekki lengri ævi en þetta að þessi orð séu aftur orðin hálfgert skammaryrði. Að þau lýsa þá orðið sjálfsmynd okkar fólks af, ég veit ekki hvað ég á að segja, þessari kynslóð sem að yngra hinsegin fólkinu finnst orðin á einhvern hátt skammarleg. Og það er ponku sérstakt að upplifa. En það er náttúrulega bara eins og lífið er. Þetta eru líka tískur sko hvaða orð og hvaða skilgreiningar fólk notar yfir sjálft sig og það er ekkert í fyrsta skipti sem að svo sem konur sem að sofa hjá öðrum konum vilja ekki kalla sig lesbíur. Það hefur oft gerst áður.

Sumar konur sváfu hjá öðrum konum af pólitískum ástæðum einu sinni og sumar bara út af eintómum feminisma og sumar bara af því að þær höfðu orðið bara fyrir svo mikilli ástarsorg af völdum karlmanns og sumar bara af því að þær rugluðust bara aðeins á fylleríi og ótal öðrum orsökum sko. En já, það skiptir máli fyrir mig að kalla mig lesbíu vegna þess að ég vil ekki skilgreina mig út frá læknisfræðiheiti, samkynhneigð, af því þessi sjálfsmynd snýst ekki bara um kynhneigð mína, hún snýst um svo miklu, miklu stærri hluta af mér. Þannig að mér finnst einvern veginn, ég er svo stolt að kalla sjálfa mig lesbíu því þetta er sögulegt og menningarlegt og svona ljóðrænt nafn einhvernveginn.

Lilja Sigurðardóttir 2017

Back To Top