skip to Main Content

Kvikmyndahátíðin Hinsegin bíódagar var haldin í fyrsta sinn í Reykjavík árið 1995. Kristín Ómarsdóttir og Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarmaður áttu frumkvæði að þessari nýjung í íslensku menningarlífi. Kristín skynjaði þörfina á Íslandi fyrir slíkan viðburð og Hrafnhildur átti heimangengt að leggja drög að dagskrá að slíkum viðburði en hún hafði þá dvalið við nám og störf í San Fransisco í rúman áratug og þekkti náið framkvæmd slíkra hátíða sem þá höfðu fyrir löngu rutt sér til rúms í stórborgum vestan hafs og austan og haft ómæld áhrif á vitundar- og menningarlíf samkynhneigðra og annars hinsegin fólks. Til að gera hátíðina að veruleika tók Hrafnhildur höndum saman við Samtökin ´78 og úr var lítil en athyglisverð hátíð sem átti þó við ýmsa örðugleika að stríða og vó þar þyngst skortur hátíðarinnar á fé til framkvæmda.

Árið 2004 hafði Hrafnhildur flust heim til Íslands og leitaði þá aftur liðsinnis Samtakanna ´78. Í félagi við hóp sjálfboðaliða tókst henni að efna til glæsilegrar kvikmyndahátíðar undir heitinu frá 1995, en brátt urðu Hinsegin bíódagar sjálfstæð félagasamtök. Ýmsir styrktaraðilar komu að framkvæmdinni og munaði þar mestu um framlag kvikmyndahússins Regnbogans sem hafði aldrei í sögu sinni kynnst jafn áhugasömu og stjórnsömu fólki og starfsfólki hátíðarinnar. Meðal annarra styrktaraðila má nefna Reykjavíkurborg, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Bandaríska sendiráðið á Íslandi og flugfélagið Iceland Express. Mikill undirbúningur lá að baki hátíðinni við að velja kvikmyndir til sýningar og sótti starfsfólk hennar erlendar hátíðir í London, Berlín og San Francisco til að standa sem best að valinu.

Hinsegin bíódagar stóðu í ellefu daga í mars 2004 og fengu mikla kynningu í fjölmiðlum. Þar voru sýndar þrettán kvikmyndir í fullri lengd auk tveggja safna stuttmynda, en það form kvikmynda hefur löngum notið mikilla vinsælda meðal hópsins sem þeim er einkum ætlað að höfðu til. Þar var einnig sýnd kvikmynd þeirra Hrafnhildar Gunnarsdóttur og Þorvaldar Kristinssonar, Hrein og bein, sem þá þegar hafði lagt upp í glæsta för um kvikmyndahátíðir heimsins. Á Hinsegin bíódaga var boðið fáeinum heiðursgestum úr hópi þeirra sem hlut áttu að verkum hátíðarinnar, gefið var út veglegt dagskrárrit, vefsíða fór í loftið og dómnefnd veitti verðlaun fyrir bestu kvikmyndir í flokki leikinna mynda, heimildarmynda og stuttmynda. Aðsókn fór fram úr björtustu vonum en alls sóttu um 1300 manns sýningarnar og alls lögðu um tuttugu manns fram krafta sína í störfum sjálfboðaliða.

Í mars 2006 var leikurinn endurtekinn á svipuðum nótum og áður, og nú í nánu samstarfi við Samtökin ´78 og stúdentafélagið FSS. Að þessu sinni var boðið til tíu daga veislu, sýndar voru níu leiknar kvikmyndir í fullri lengd og ellefu heimildarmyndir auk þrettán stuttmynda,  alls frá tólf þjóðlöndum. Tvær myndir eftir Íslendinga voru þar á dagskrá, Transplosive eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur og Einu sinni var … kynvilla eftir Evu Maríu Jónsdóttur. Sem fyrr  leitaði starfsfólk hátíðarinnar fanga á kvikmyndahátíðum heimsins, gefið var út dagskrárit og vefsíða var með sama sniði og áður. Ekki skorti athygli og áhuga fjölmiðla og alls sóttu um 1450 manns hátíðina. Dómnefnd veitti verðlaun fyrir bestu leiknu myndina, bestu heimildarmyndina og bestu stuttmyndina. Sérstaka athygli vakti hve heimildamyndir hátíðarinnar nutu mikillar aðsóknar og vinsælda gesta.

Í fjórða sinn voru Hinsegin bíódagar haldnir í samvinnu við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík – RIFF árið 2008. Það var gert að hætti erlendra hátíða í von um að ná til fleiri gesta og rjúfa þá einangrun sem oft vill umlykja hinsegin kvikmyndagerð. Framlag Hinsegin bíódaga til RIFF naut ágætrar aðsóknar en missti þó marks um margt og söknuðu margir þess góða hópeflis sem myndast hafði um hátíðirnar í Regnboganum á fyrri árum. Síðan hafa Hinsegin bíódagar ekki verið haldnir.

Of langt mál er upp að telja upp allt það merka hugsjónafólk sem vann að Hinsegin bíódögum og skiptir nokkrum tugum. Þó skal hér nefndur Jankees Boer, stórnandi Rosen Filmdagen í Amsterdam, sem reyndist óþreytandi liðsmaður hátíðarinnar með dýrmætum ráðleggingum og nærveru sinni á hátíðunum 2004 og 2006.

HINBIO_04
Hrein_og_bein_plakat HORFA
Transplosive plakat HORFA
HINBIO_08
Mamma_Postkort

SÖGUBROT

                  Krummafilms, Gufunesvegur 1, 112 Reykjavík, IS, sími: +354 821 1110                  www.krummafilms.com                  

HINSEGIN BÍÓDAGAR

Back To Top