skip to Main Content

ERFIÐAST AÐ VITA AF FÓLKI Í FELUM

Samtökin ‘78 voru á þessum árum [fyrri hluta 9. áratugarins] lítið félag. Við töldum þrjátíu manns. Þau voru lítið annað en póstkassi, menn hittust á heimili formanns, héldu fundi þar og þar var oft mjög gaman að vera en öll hópmyndun var mjög veik og lítt sýnileg. Svo hittist þessi hópur á skemmtistöðum. Hann átti sér ákveðna skemmtistaði, Klúbbinn og Óðal að mig minnir. Þau höfðu haldið sinn fyrsta dansleik hálfu ári áður en ég kom heim. Þar urðu til mörg hjónabönd sem síðar hafa lifað og þau höfðu átt sér félagsheimili sem var lítið annað en kjallaraskonsa upp á 16 fermetra, en ekki haft efni á að halda henni svo að lítið var um að vera. Og þó, ég man að um það bil sem ég kom heim birtist stórt opnuviðtal við formann samtakanna og manninn hans og ég man líka að þau voru að vinna að sínu fyrsta blaði, sinni fyrstu blaðaútgáfu um það leyti sem ég kom heim. Sú blaðaútgáfa var nú reyndar alla tíð mjög stopul, en engu að síður –  þau kunnu og þau gátu. Þessir fyrstu vinir mínir meðal samkynhneigðra á íslandi voru ekki það erfiðasta. Það sem var erfiðast voru allir þessir hommar og lesbíur sem ég skynjaði allt í kringum mig en voru meira eða minna ósýnileg. Eg fór á skemmtistaði, mér var gefið auga, ég sendi auga á móti, úr því varð kannski ævintýri einnar helgar, síðan ekki meir og ég hugsaði: Er eitthvað að sjálfum mér? Hafa þeir ekki áhuga á mér? Er ég vitlaust klæddur? Hef ég ekki almennilega komist í samband við tískuna og smekkinn á Íslandi? Svo áttaði ég mig á því að það var ekki um þetta sem málið snerist heldur að þeir gátu ekki hugsað sér að lifa sem hommar í dagsbirtu og það var nú það.

Úr viðtali við Þorvald Kristinsson, 1997

Back To Top