skip to Main Content

FYRSTA KONAN SEM VAR FORMAÐUR

Ég gekk í Samtökin 78 haustið 1987, þá er ég 22 [ára gömul]. Hafði verið aðeins úti á landi í smá svona hvíld frá háskólanáminu og kom aftur til Reykjavíkur til að byrja nýtt og meira spennandi líf, sem sagt með það fyrir augum að koma út. Og þá eru samtökin bara nýbúin að fá þetta hús niðri á Lindargötu 49 sem átti nú eftir að vera bara mjög mikill miðpunktur í allri starfsemi næstu. ja bara fram undir aldamót líklega eitthvað svoleiðis, rúm tíu ár sem að var þarna mjög mikil starfsemi, var svona mjög mikið hjarta bæði félagslífsins og hinnar pólitísku baráttu. Og ég held að það hafi verið svona 75 skráðir félagar í Samtökunum ’78 þegar ég kom á vettvang, eitthvað svoleiðis. Þannig að það var svona, allir sem að vettlingi gátu valdið voru látnir gera einhvern fjárann þannig að ég var orðin varaformaður samtakanna eftir nokkra mánuði, vorið 1988 kjörin á fundi og árið eftir það, 1989, er ég orðin formaður S78, fyrsta konan til að gegna því embætti og bara rétt í kringum 24 ára aldurinn. Og var síðan viðloðandi allt sem tilheyrði félaginu til ársins svona 1996. Lokapunkturinn á mínu pólitíska starfi með félaginu var skýrslan góða hérna um, um aðstæður samkynhneigðra á Íslandi þar sem að tillögurnar um lögin um staðfesta samvist og um verndarlöggjöfina voru settar fram og síðan samþykktar í framhaldinu. Þannig að þetta er mitt tímabil svona ´87 – ´96.

Lana Kolbrún Eddudóttir, janúar 2017

 

Back To Top