skip to Main Content

JARÐARFÖR Á HVERJUM FÖSTUDEGI

Ég hef stundum hugsað það þannig að það er ekkert hægt að ætla sér að sætta sig við þetta eða átta sig á þessu, vinna úr þessu, lifa með þessu og allt þetta, það er voða fallegt og huggulegt. En þegar svona margir af vinum manns falla frá á stuttum tíma og maður var bara orðinn vanur því á þessum tíma að það væri jarðarför á hverjum föstudegi. Þetta er svona skelfilegur tími. Þetta er aðallega ‘91–92, þegar þetta fór raunverulega að taka sinn toll, fólk var búið að vera veikt. Þetta var einfaldlega slíkur hörmungartími að mér líður stundum eins og maður hafi lent í stórslysi, eins og Estóníu. Ég ímynda mér það að ef maður lifir það að verða 75 – 80 [ára], eitthvað svoleiðis lagað þá sé nú farið að tínast úr vinahópnum. En þegar maður er ekki nema um þrítugt, rúmlega það, innan við fertugt og maður er á einhverjum stað þar sem maður hafði verið fimm árum áður og áttar sig á því að það er enginn hér sem var með manni þá, þeir eru allir dánir, þeir eru allir farnir. Það gat ekkert verið eðlilegt og þetta kom það nálægt mér, að ég ímynda mér það ekkert að maður geti sætt sig við þetta.

Einhvern veginn heldur maður samt sem áður áfram og þá verður maður held ég að bregðast við þessu á einhvern órökrænan hátt. Þá hef ég stundum hugsað þó það sé ekkert vit í því, einhvern veginn má líta á þetta að þetta séu menn sem hafa fallið í baráttu. Þetta hefur, það er ekkert vit í þessu, en það er samt sem áður þannig að þetta varð til þess að þjóðfélagið varð að gera sér grein fyrir því að það er til samkynhneigt fólk og það væri fólk sem hefði sínar þarfir eins og aðrir; sem sagt það yrði að reikna með þeim. Ef maður hugsar sér svo að þetta fólk hafi hreinlega fallið í baráttunni fyrir þessu sko að þá á einhverjum litla heila-level þá meikar það sens.

[…] ég tek eftir því að þessi tími gleymist mikið og lengi vel gat ég aldrei sagt hvenær Reynir Már dó, bara því miður, ég man það ekki. Það er algerlega lokað fyrir þennan tíma í minningunni, bara algerlega. Það er fyrst núna sem ég get farið að átta mig á því og tengja þennan tíma inn í allt saman.

Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2004

Back To Top