skip to Main Content

ÞAÐ VAR EKKI HLUSTAÐ Á OKKUR

En það sem hafðist upp úr þessu var það að Böðvar var gerður að ráðgjafa hjá Samtökunum [’78] og var settur á laun. Þá vorum við búin að fá húsið niðri á Lindargötu og hann hafði þar símatíma og átti sem sagt að vinna að þessu í samráði við Landsnefnd um alnæmisvarnir held ég að það hafi heitið […]. Það vantaði ekki, það átti að gera þetta afskaplega huggulega. Og þetta leit mjög vel út en þegar það áttu að fara að vera einhverjir fundir og svoleiðislagað þá sagði Böðvar: Ég fíla mig eins og Andrés Önd. Það er ekki hlustað á mig fyrir túkall.

Það kom út þessi fyrsti alnæmisvarnarbæklingur frá Landlæknisembættinu og það voru einhver skrímsli út um allt og þetta var ekki í neinu samræmi við neinn veruleika. Við fengum próförk af þessu í hendurnar og gerðum á þessu einar 30 leiðréttingar, athugasemdir, vildum hafa þetta öðruvísi. Engin þeirra tekin til greina, engin. Ég meina, kannski hefur þetta ekki allt verið eins og það átti að vera en það er svolítið sérkennilegt að ef það er einhver svona ráðgjafarhópur eða umsagnaraðilar eins og það heitir eflaust núorðið að hann slampist ekki á eina eða tvær athugasemdir sem hefði mátt gera. En það var bara nákvæmlega ekkert tillit tekið til þess sem við höfðum að segja. Ekki neitt. Og fílingurinn, ég var að skrifa […] fyrir rauða borðann, Alnæmisfélagið, einhverja grein fyrir tveimur árum um það hvernig hlutirnir voru. Ég sagði já, ég skal gera þetta mjög persónulegt hvernig okkur leið, hvernig þetta var, hvernig þetta raunverulega var, hvernig þetta snéri við okkur svona súbjektíft. Og þegar ég byrjaði að pæla í þessu var fyrsta líkingin sem ég fann, en notaði ekki því að mér fannst hún of dramatísk, en hún segir svolítið söguna. Þetta var eins og að búa í húsi og þú sérð að svona meðfram veggjunum eru að koma eldtungur. Það er greinilegt að það er kviknað í húsinu en bara lítið og með því að þústa þetta niður hverfur þetta. Þú situr þarna inni og þú veist að það er kviknað í húsinu og þú sérð öðru hverju einhverja loga en þú getur svona losnað við þetta. Svo er þetta orðið svo slæmt að þú hringir í slökkviliðið og þá segir slökkviliðið: Hvar er þetta? Þú segir þeim það og þá segir slökkviliðið: Því miður. Þetta hús er bara ekkert á skrá. Þetta er bara ekki til. Við viljum allt fyrir ykkur gera en við vitum ekkert hvar þetta er og við getum ekkert gert. Þið eruð ekki til. Og það var einmitt vandinn. Þeir gátu ekki dílað við það sem ekki var til. Opinberlega var þetta bara eins og í Sovétríkjunum. Það var ekki til neitt sem hét samkynhneigðir karlmenn á Íslandi, þeir voru ekki til í neinum plöggum, það var ekkert hægt að vísa í eitt eða neitt, þeir voru einfaldlega ekki til enda hefndi þetta sín á samfélaginu að hafa komið svona fram.

Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2004

 

Back To Top