skip to Main Content

ÞAÐ VISSI ENGINN NEITT UM ALNÆMI

Það sem var með þetta alnæmisdót var að þetta kom yfir mann eins og þruma úr heiðskíru lofti. Fyrst vissi enginn neitt. Þegar þetta var að byrja og þegar við lentum fyrst í því að fólk var að byrja að smitast úti í Kaupmannahöfn þá vissi enginn neitt um þetta, það hafði enginn heyrt nokkurn skapaðan hlut. Svo fór maður að frétta aðeins af þessu, maður reyndi nú að fylgjast með þessu og það vissi enginn neitt. Hvað þetta var? Hvernig á þessu stóð?

Eins og fólk veit þá byrjaði þetta með því að gay menn í Bandaríkjunum, New York, San Francisco, fóru bara að hrynja niður úr einhverjum ókennilegum sjúkdómi og enginn vissi hvers vegna. Og það var búið að finna út að það væri eitthvað í lífsháttum þessa fólks sem stæði fyrir þessu, hvort það væru ljósaböðin eða poppers-ið eða hvað það væri sem gerði þetta að verkum. Eða hvort þetta væri bara svipa guðs yfir þessu óhugnanlega fólki. Málið var það að það vissi enginn neitt.

Svo komum við hingað heim og þá var fólk farið að átta sig á þessu örlítið hvað er að ske […] það er kannski ekki rétt að þetta hafi verið eins og þruma úr heiðskíru lofti, það er ekki rétt. Þetta læddist miklu meira að manni eins og óhugnaður, maður reyndi að hrista þetta af sér en þetta var bara greinilegt að þetta var. Svo var verið að hugga fólk með svona hlutum eins og að af þeim sem smituðust þá væru kannski ekki nema svona 10 % sem raunverulega veiktust. Þó að fólk mældist jákvætt, það voru ekki einu sinni komnar neinar almennilegar mælingar á þetta enn. En svo þegar tíminn leið og hlutirnir fóru að koma í ljós þá reyndist þetta náttúrulega vera þannig að þeir sem smituðust af þessu, þeir gátu gengið að því vísu að vera dauðir innan fimm ára. Þetta skapaði náttúrulega afskaplega sérkennilegt sjónarhorn til lífsins og tilverunnar. Fólk hugsar alltaf þannig að það muni lifa allt að því endalaust en þegar þú veist að það er að fara að koma að því að þetta geti ekki staðið mjög lengi, þá verður allt önnur tilfinning gagnvart því sem er að ske. Þá verða svona hlutir eins og lífeyrissjóður og svona hlutir, maður bara hlær að þessu og þetta smitar yfir alla hvort sem fólk hafði fengið þessa veiru eða ekki. Það voru allir í þessum sama hugsunarhætti og ýtti enn þá á þessa tilfinningu að vera á jaðrinum, að maður væri ekkert með í þessu þjóðfélagi. Það var ekki það að manni þætti það eitthvað skelfilegt að vera ekki með í þessu þjóðfélagi. Maður raunverulega þakkaði fyrir það, því það var þó skárra að vera fyrir utan þetta en að vera inni í þessum óskapnaði, alveg hræðilegt. Þangað til að fólk fór að verða veikt. Þá fannst manni þetta ekki skemmtilegt og það var eins og það vildi enginn neitt um þetta tala.

Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2004

Back To Top