skip to Main Content

SAMSKIPTIN VIÐ HEILBRIGÐISKERFIÐ ERFIÐ

Læknarnir áttu afskaplega bágt með það að viðurkenna að það var kominn upp sjúkdómur sem þeir vissu ekki hvaðan kæmi, vissu ekki hvernig hann virkaði. Þeir vissu að hann smitaðist en ekki alveg hvernig […] en hann væri bráðsmitandi. Og sérstaklega áttu þeir bágt með það að viðurkenna það að þeir gætu ekkert við þessu gert. Ekki bara eitthvað pínulítið heldur nákvæmlega ekki neitt. Sem sagt, það þýddi ekkert fyrir þig að fara til læknis. Læknirinn gat ekkert hjálpað þér. Og þeir voru ekki tilbúnir að viðurkenna þetta frammi fyrir fólki, vegna þess að þeim þótti sem að það rýrði traustið á þeirra autoritet. Það er partur af þessari læknislist – að fólkið treysti lækninum. Ef fólk treystir ekki lækninum þá hreinlega minnka líkurnar á því að lækningin takist. Og þeir gátu ekki sætt sig við þetta.

Við fylgdust náttúrulega með þessu eins og við mögulega gátum og lásum okkur til um alla mögulega hluti og reyndum að átta okkur á þessu eins og við mögulega gátum, sem þýddi það að við vissum nákvæmlega jafnmikið og þessir farsóttarlæknar um þetta. Þeir voru mjög sáttir við það og ánægðir með það, smitsjúkdómalæknarnir sjálfir. Það voru tveir eða þrír sem voru specialistarnir í þessu og það var aldrei neitt yfir þeim að kvarta.

En þeirra yfirmenn og skrifstofuliðið, aðstoðarlandlæknir og landlæknir, þeir voru ekki vanir því að það kæmi fólk utan úr bæ og þættist vita eitthvað um þetta. Það var bara ekki hægt. Og þegar þetta byrjaði, það var ekki nóg með að þeir vissu ekkert hvaðan þessi sjúkdómur væri og gætu ekkert gert við honum. Þeir þurftu líka að játa það að þetta legðist á ákveðinn hóp og að þeir vissu ekkert um þann hóp. Það þurftu þeir líka að játa og það var kannski ekkert sniðugt því allir gátu fyrirgefið það, eða það var hægt að virða þeim það til vorkunnar að þeir gætu ekkert vitað um einhvern sjúkdóm sem kæmi allt í einu upp einhvers staðar frá hitabeltinu. Félagslegi þátturinn í öllum sjúkdómum var orðinn alveg viðurkenndur.  […] að það skipti örlitlu máli hvort þú værir að tala við sjómenn eða leikara en það var þá sérkennilegt, af hverju vita þeir ekkert um þennan hóp? Þeir vissu ekkert um hann. Ekki neitt! Jafnfjarlægt og frá Mars. Og fyrstu samskiptin við heilbrigðisbatteríið voru bara mjög erfið. Það verður bara að segjast alveg eins og er.

Þeir vildu upplýsa fólk um þennan sjúkdóm án þess að minnast á homma. Það átti að upplýsa fólk um þetta eins og þetta legðist bara á gagnkynhneigt fólk, samkynhneigðir áttu að taka til sín sneiðina svo að segja. Og það átti að forðast að minnast nokkuð á homma í sambandi við þetta og þegar við fórum að segja: Þetta er nú ekki alveg eftir því sem okkur finnst vera, alls ekki eftir því sem gert hefur verið í nágrannalöndunum. T.d. í Noregi sem þykir nú frekar siðprútt og kristilegt land á alla kanta, þar voru flennistórar auglýsingar sem höfðuðu beint til homma á máli sem þeir skildu með hlutum sem vöktu þeirra athygli. Algerlega skilaboð til þeirra um hvað þyrfti að gera til að koma í veg fyrir þetta. Og það var tiltölulega einfalt mál. Það var ekki eins og þyrfti að setja einhverja ægilega flókna hluti. Safe-sex reglurnar eru mjög einfaldar. En það þurfti að koma þeim þannig til skila að þeir sem þurftu á þeim að halda tækju þær til sín. Eins og hver önnur auglýsingadæmi. Ef þú ætlar að selja börnum eitthvað þá auglýsirðu ekki fyrir gamalt fólk, það segir sér sjálft […]. 

Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2005

Back To Top