ENNÞÁ STÖDD Í GLÆPNUM
Ég gerði mér grein fyrir því þegar Guðrún Ögmundsdóttir boðaði breytingatillögu sína [um að bæta við kirkjubrúðkaupum] við hið stóra frumvarp ríkisstjórnarinnar [2005] að það myndi kosta átök. Þau urðu reyndar meiri og grimmari en ég bjóst við en þau skiptu mjög miklu máli tilfinningalega þessi átök því að þau sýndu það og sönnuðu fyrir mér að við erum ennþá stödd í glæpnum. Það hefur tekið okkur nokkra mannsaldra að stíga út úr skugga þess glæps sem við vorum dæmd til og við erum ennþá að stíga síðustu skrefin. Og þessi síðustu skref stígum við gagnvart kirkju og kristni og það er mjög lærdómsríkt að ganga í gegnum þau átök. Það var mjög lærdómsríkt að lesa það og heyra hvernig biskup Íslands fór hamförum og missti í rauninni stjórn á þeirri mannvirðingu sem að honum ber eins og öðrum mönnum. Og ég ímynda mér að hann hafi nú stundum nagað sig í handarbökin eftirá að hyggja og orðið að ræða við drottinn sinn um allt það sem hann lét útúr sér í því sambandi. En allt gleymist þetta og allt verður þetta nú að engu þegar fram líða stundir, en það er mjög mikilvægt að kalla stundum til átaka til þess að samfélagið skilji hversu veggur höfnunarinnar hefur verið mikill í gegnum tíðina. Og sá múr, sá veggur, hefur ekkert verið mulinn niður ennþá.
[…]Það er mjög mikilvægt fyrir homma og lesbíur og þeirra sjálfsvirðingu að þau skuli núna njóta sama réttar, sömu viðurkenningar til fjölskyldustofnunar og aðrir íslenskir þegnar og sitja við sama borð og aðrir. Því að lögin gefa ekki bara heimildir og leyfi, og lögin eru ekki bara til að banna, þau eru fleira en að bjóða og banna. Þau marka líka mannasiði í samfélagi okkar og það gleymist stundum. Og burt séð frá því hvort lög verða nýtt og notuð og heimildir hafa þýðingu fyrir fjöldan eða fáa það skiptir ekki máli því að í lögbókinni felst ákveðinn kóði eða leiðbeining um mannasiði og við sáum það 1996 þegar lög um staðfesta samvist gengu í gildi að þau höfðu umfram allt þýðingu fyrir þá mannasiði sem okkur bar. Íslenska þjóðin tók upp aðra siði og aðra hætti gagnvart hommum og lesbíum en hún hafði áður iðkað. Það er það mikilvægasta við lagabætur. Og með þessum nýju lögum þá munu þessar siðareglur enn verða ítrekaðar.
Úr viðtali við Þorvald Kristinsson, 2005