skip to Main Content

HEIMAVISTIN Á LAUGARVATNI

Nú tíminn á Laugarvatni. Þarna erum við í heimavist þannig að þetta er nokkuð náið sambýli. Ég er þarna…flestir nemendur eru þarna með gagnfræðapróf eða landspróf já eða verslunarskólapróf, ég er hins vegar búin með kennaraskólann þannig að aftur er ég kannski litin hornauga, að ég sko líti svo stórt á mig því ég sé með meiri skólagöngu að baki. Nú síðan bætist það líka við að þarna var stór hluti stelpnanna sem hafði verið í fimleikum í Ármanni en ég hafði verið í ÍR í fimleikum og það var einhver svona hrepparígur þið vitið á milli þessara félaga án þess að hann væri kannski í brjóstum okkar allra. Og það var kannski svona samkomulag að þessar fjórar stelpur sem komu beint úr Ármanni þær vildu vera saman í herbergi. Það var reyndar hugmyndin að það væri dregið og þá æxlaðist það þannig að ég lenti með einni af þessum Ármannsstelpum í herbergi en þá vildu þær halda hópinn. Og þessi Ármannsstelpa sem ég hafði dregist með var einmitt Jónína. Engu að síður varð það nú þannig að við hölluðumst mjög að hvor annarri t.d. í náminu og við lásum svolítið saman. Hún gat verið dálítið róleg og sein á morgnana þannig að hópurinn var yfirleitt farinn á undan og hún var ein eftir. Mér fannst það nú hálfnöturlegt að skilja hana eftir eina þannig að ég beið oftast eftir henni og við náðum alltaf í réttum tíma upp í skóla. 

Ég hafði leigt herbergi hjá afa í Þingholtsstrætinu og það hafði síðan verið leigt meðan ég var á íþróttakennaraskólanum þannig að það bara æxlaðist þannig að foreldrar Jónínu hleypa mér inn. Móðir hennar tók mjög vel á móti mér og það var eiginlega einstakt samband á milli okkar. Ég held nú að sú gamla sem var nú lærð hjúkrunarkona og hafði lært úti í Danmörku og ekki alveg fædd í gær hafi nú svona vitað meira en hún sagði við stelpurnar. Þannig að ég er raunverulega undir verndarvæng, þannig tekst mér að komast inn í heimili eins og uppeldisdóttir. Ég er undir verndarvæng þeirra síðan við útskrifumst úr íþróttakennaraskólanum ‘57, þangað til haustið ‘62, þá förum við saman út til Englands. Þar fáum við sem sagt ráðrúm líka til að vera saman án þess að trufla nokkuð aðra.

 

Back To Top