skip to Main Content

ÖLL BRENNUVARGAR

Það voru ýmis ævintýri sem maður lenti í sem eru eiginlega skondin núna. Þetta er svo grátbroslegt. Það kom sérfræðingur í brunamálum til Íslands og hélt fyrirlestur á Brunamálastofnun. Fyrirlesarinn segir m.a. að pýrómanar, brennuvargar, séu oft kynferðislegir pervertar. Og það var greinilega samasemmerki, brennuvargar = sexuel pervertar = hommar og lesbíur. Það vorum við. [Skemmtistaðurinn] 22 voru þá í góðum gír og það hafði verið gert eftirlit á staðnum stuttu áður. Við erum að tala um einhverjar vikur, kannski mánuð og ekki miklar athugasemdir og smávægilegar. Þáverandi eigandi 22 sagði einmitt að það væri ekkert vont að eiga við þetta fólk og þau væru ekkert með leiðindi þó það væru þarna mikið hommar og lesbíur. Nema það að svo kemur fyrirlesarinn og þá er fólk hjá Brunamálastofnun sem tekur við sér og ábyrgðartilfinningin vex í þeim og þau mæta á staðinn til að gera nýja úttekt. Og gera þrjár athugasemdir og þær voru svo alvarlegar að staðnum var lokað. Fyrsta athugasemdin var sú að ljósaperan í neyðarútgangsskiltinu á efri hæðinni var ekki nógu sterk. Númer tvö var að það hafði nýlega verið skipt um lás í hurð, sílinder verið færður og það var gat í hurðinni. Sú þriðja var að það voru svartir plastpokar liggjandi fyrir utan dyrnar í portið. Þetta eru smáatriði en staðnum var lokað. Stefán Jón Hafstein hafði húmor fyrir þessu og spurði hvort ég væri ekki svekkt yfir því að nú væri á endanum komið upp í beinni útsendingu í útvarpinu að við værum öll pýrómanar. Ég sagði jú, þetta gerir baráttuna miklu verri þegar þetta er komið í ljós. Það kom í ljós var mér svo sagt seinna að sá maður sem gerði þessa úttekt, hafði farið í frí og þá höfðu hinir séð tækifærið birtast til þess að loka þessum stað. Sódóma og Gómorra eins og við kölluðum það stundum. Ég man ekki hvort þetta voru ein eða tvær helgar eða hvað það var en svo sáu þeir að sér. Eða hvort þetta var lagað til. Keypt sterkari ljósapera og sett sparsl í gatið og öskukarlarnir hafa náð í svörtu pokana.

Guðrún Gísladóttir, 2000.

 

Back To Top