skip to Main Content

PÓSTINUM VAR STOLIÐ

Ég lærði þá lexíu að það er þakkarvert að fá gluggapóst. Ég lenti nefnilega í því að fá ekkert í nær hálft ár. Ég fékk ekki bankarukkanir mínar, ég fékk ekki símareikningana mína, ég fékk engin persónuleg bréf, ég fékk ekkert af póstinum mínum frá Samtökunum [’78], tilkynningar um að endurnýja tryggingavíxilinn fyrir kreditkortinu mínu, ég sá ekkert af þessu. Ég fékk ekki póst. Það var eins og ég hefði dottið út af tilveruskránni. Þetta gerðist um það leyti sem deilan við Hafnarfjarðarbæ stóð sem hæst og ég fylltist grunsemdum bara að almættið væri að strika yfir mig í sínu góða félagatali og ég talaði við bankann og þjónustustofnanir. Ég skammaði póstinn aftur og aftur og alls staðar sömu svör. Allt var sent af stað — það bara kom ekkert til mín. Bjó þannig í stigagangi að póstinum var bara smellt inn um lúguna, opinn og aðgengilegur fyrir alla. En í hálft ár fékk ég ekki póst og ég fékk enga skýringu. […]

Það var liðið nálægt hálft ár þegar kona á efri hæðinni kemur með drenginn sinn, kannski 9 -10 ára gamlan sér við hlið hágrátandi og bankar upp á hjá mér og segir: „Ég er gjörsamlega miður mín, ég er gjörsamlega miður mín, sko þessi drengur hér ætlar að segja þér hvað hann er búinn að gera,“ og það hafðist upp úr piltinum á dágóðri stund milli ekkasoganna að í hálft ár hafði hann og tvö önnur börn í götunni setið sér færis að fylgjast með póstinum og plokka út allt sem að var merkt mér. Þessu tróðu þau öll í skáp undir stiganum í stigaganginum, gamlan málningarskáp sem hafði ekki verið opnaður í mörg ár. Nú einn af þessum úr tríóinu var fluttur erlendis og þeir sem eftir lifðu misstu kjarkinn, guggnuðu og hann brotnaði saman fyrir framan móður sína og gekkst við öllu saman, ásamt stúlku sem var þarna í húsinu líka. Og móðirin náttúrulega bara neri hendur sínar og sagðist ekki skilja í þessu. Ég fór í gegnum póstinn, opnaði skápinn og það bara vall út póstur hálfs árs. Þú getur rétt ímyndað þér þetta var þarna allt saman, nema það vantaði efnið frá Samtökunum. […] Ég benti henni á þetta að þetta væri undarleg tilviljun að þetta væri það eina sem hefði verið tekið eða rifið og hún sagði: „Getur ekki verið … drengurinn þessi … barnið … og börnin … hvað heldur þú að þau viti hvað hommar og lesbíur eru eða að þau séu með einhverja fordóma, getur ekki verið.“ Gott og vel en akkúrat um þessar mundir þá voru mín mál í fjölmiðlum út af deilum mínum við Hafnarfjarðarbæ. Ég var á forsíðum sem lesbíska fóstran í Hafnarfirði og dyrabjallan mín var brotin í tvígang þannig að ég hafð hætt að láta merkja hana og trúlega vita þessi börn ekki enn af hverju þau gerðu það en mér þótti þetta undarleg tilviljun. En síðan hef ég verið þakklát fyrir að fá póst.

Úr viðtali við Margréti Pálu, 1997

Back To Top