ALLIR AÐ DANSA ALLSBERIR Í KRINGUM JÓLATRÉ
Ég kom á vettvang Samtakanna þegar ég var 16–17 ára. Þá voru Samtökin á Lindargötunni, litla gula húsinu á Lindargötunni. Ég kom þarna á opið hús. Maður hafði heyrt svona auglýsingar frá Samtökunum ‘78 og svona og heyrt alls konar sögur, að þetta væri eins og furðulegur sértrúarsöfnuður og eins og einhver vinur minn sagði — að hann sæi í anda að það væru allir að dansa allsberir í kringum jólatré. En svo var þetta bara alls ekkert í þá líkingu sem var auðvitað létt blanda af vonbrigðum og feginleika. Ég kom ung þarna á vettvang og það voru ekkert rosa margir unglingar í Samtökunum á þeim tíma. Það var ekkert voðalega mikið af svona ungu gay fólki eða trans eins og er í dag. Þannig að við héldum aðeins hópinn þessar fáu sálir sem voru.
Samt sem áður fór maður voða hratt og óvænt inn í fullorðinssamfélag sem var ekki endilega ofsalega þroskað á þeim tíma. Maður veit kannski ekki alveg hvort maður á að segja það í kvikmynd, en svona fyrstu árin þá vaknaði ég oft á óvæntum stað. Þannig var þetta svolítið. Það var dálítið mikill lifnaður og mikið djamm og það var kannski eftir á að hyggja ekkert ofsalega hollt fyrir unga manneskju að koma inn í þetta samfélag. Þótt það væri um leið svo frábærlega dásamlegt. Í raun og veru bjargaði það mér á ákveðinn hátt vegna þess að þarna var líka svo fallegt og gott fullorðið fólk sem tók ábyrgð á þessu, þessum ungmennum sem komu þarna vegavillt og í vandræðum með sjálf sig. Ég hélt dálítið mikið til í Samtökunum þessi fyrstu ár í leit að félagsskap og stuðningi. Það var mjög frábært.
Úr viðtali við Lilju Sigurðardóttur