ALDREI HAPPY END
Mig vantaði algerlega [fyrirmyndir]. Þessar stelpur sem ég kynntist í samtökunum voru flestar yngri en ég – og auðvitað getur maður alveg tekið fyrirmyndir sem eru yngri – en það var ekki neins staðar að maður vissi um manneskju úti í samfélaginu sem hafði bara sætt sig við kynhneigð sína og haldið áfram að lifa eðlilegu lífi. Það voru allt miklu sorglegri sögur. Annaðhvort voru þetta ungar stelpur, þær sem voru t.d. tíu árum yngri en ég sem var algengt þegar ég kom þarna fyrst, mér fannst það alveg frábært að þær gætu bara strax um tvítugt komið úr felum og byrjað að móta líf sitt og sættast við sjálfar sig sem þær sem þær eru. En hins vegar ef maður lítur upp fyrir sig þá var þetta ekki til og ég man varla eftir því, ef ég fer að hugsa um það, hvaða fullorðnu lesbíu ég hefði getað tekið mér til fyrirmyndar. Maður sá einstaka bíómynd sem fjallaði um ástir lesbía. Þá alveg reyndi maður að komast yfir þær og sjá þær en þær enduðu allar á því að það fór önnur aftur til karlmannsins sem hún hafði verið með eða framdi sjálfsmorð eða það var aldrei happy end. Skilaboðin eru alltaf þessi: Þetta er ekki hægt. Þannig að auðvitað er það mjög slæmt að fá ekki þessa fyrirmynd. Vanessa Redgrave til dæmis. Það var eitthvað við hana. Það var mjög gaman að horfa á myndir með henni hvað svo sem það var. Það var einhver sterkur kvennakraftur sem kom fram í mörgum bíómyndum. Þótt það væri ekki verið beinlínis að fjalla um ástir kvenna þá fannst mér mjög gott að horfa á svoleiðis myndir þar sem konur voru ekki beinlínis í þessu hefðbundna kynhlutverki. Þar sem bíómyndin gekk ekki bara út á það að ná ástum einhvers karlmanns. Þetta var nú það sem maður þurfti að sætta sig við.
Úr viðtali við Elísabetu Þorgeirsdóttir, 1997.