skip to Main Content

ÍSLENSK-LESBÍSKA

Við stofnuðum Íslensk-lesbíska, skammstafað ÍL, á einhverjum tímapunkti þegar við vorum nokkrar róttækar stelpur sem fannst hommarnir ráða fullmiklu í Samtökunum. Við vorum fámennari, við vorum minna áberandi. Alþjóðasamtökin ILGA voru nýbúin að beina þeim tilmælum til aðildarfélaganna sinna að telja alltaf lesbíur upp á undan hommunum í nafni og markmiðum samtakanna til að draga fram hinn ósýnilega hóp kvenna. Og skemmtanir, nýting á félagsheimili, innkaup á bókasafn og blöðin, myndbönd til leigu fyrir félaga og okkur leið oft eins og við værum, við værum á öðrum stað. Og við vorum róttækar, við vorum partur af, af ýmsum kvennahreyfingum sem voru á níunda áratugnum að blómstra og við gengum svona út að hluta. Þetta var, þetta var hörkudugmikill hópur og þetta var tvennt sem að ég man aðallega eftir úr starfinu okkar, fyrir utan allt hitt sem ég man en svona tvö meginatriði. Annað var að tala um hina tvöföldu kúgun lesbía. Við erum bæði konur sem tökum allt sem því fylgir, lægri laun og, og allt hérna sem fylgir í misréttis samfélagi og síðan sem lesbíur þá náttúrulega vorum við í hópnum með strákunum og undir, já og undir hælnum, og á þessum tíma náttúrulega, við héldum ekki vinnu, við vorum rekin úr íbúðum þið vitið, fólki var hent út af skemmtistöðum, þetta var þessi tími þegar við fundum virkilega mismununina brenna á eigin skinni. Og ég man eftir okkur í 1. maí göngu með dreifirit að vekja athygli á stöðu okkar og annað slíkt og fengum aðstöðu á Hótel Vík þar sem önnur kvennasamtök voru. Reyndar tók það nú nokkra fundi að við fengjum opinberlega þar inni af því að það voru ekki öll kvennasamtök reiðubúin að opna dyrnar fyrir  lesbíum. Þetta gæti komið á hálfgerðu óorði á kvennahreyfinguna. Lesbíur á Íslandi voru aldrei partur af kvennahreyfingunni þannig að þarna vorum við að reyna, jú,jú loksins tókst þetta. Við fengum aðstöðu inni á Vík og ég man nú ekki hvort að við þraukuðum í 2 – 3 ár. Hinn helmingurinn af starfi Íslensk – Lesbíska það var að eiga rauðvínsglös og hvítvínsglös og slíkt og halda almennileg partí.

Margrét Pála Ólafsdóttir, 2017

Back To Top