skip to Main Content

TÓK ALMENNILEGA AF SKARIÐ

Ég vissi það að ef ég kæmi úr felum gagnvart litlum hópi manna á Íslandi þá myndi það fljótt spyrjast út. Þjóð veit þá þrír vita svo ég ákvað bara að taka almennilega af skarið og gera þetta opinberlega. Það gerði ég í gegnum Samtökin ’78, ég blandaði mér í hópinn, eignaðist fína vini og stofnaði skólahóp nokkrum mánuðum eftir að ég kom heim sem stundaði fræðslu og kynningarstarf í framhaldsskólum, því ég hafði tveggja ára reynslu af slíku starfi í Kaupmannahöfn.

Í júnímánuði 1982 stóð ég svo á Keflavíkurflugvelli, alkominn heim. Það var erfið ákvörðun. Ég vissi það að ég vildi vinna og starfa á Íslandi. Menntun mín miðaðist við það. En um leið hafði ég sagt skilið við mann sem ég elskaði vegna þess að ég var að fara til Íslands. Sambandinu var ekki lokið.

Ég hafði haft samband við Samtökin ’78 nokkru áður en ég kom heim og var málkunnugur nokkrum í því félagi og svo settist ég niður og blandaði geði frá fyrsta degi og þar hef ég verið meira og minna síðan. Eg dáðist að þeim. Þau kunnu svo margt, þau voru svo einbeitt. Mér fannst þau líka falleg, strákarnir og stelpurnar og ég furðaði mig á því hvað þau vissu mikið um kröfumar sem þau vildu gera til lífsins þá þegar. Þau voru engir heimalningar. Mörg þeirra höfðu líka búið í útlöndum í lengri eða skemmri tíma. Eg var líka hissa á því hversu margir kornungir voru að koma úr felum á þessum árum 1980. Fólk frá sautján til tuttugu ára, til dæmis. Í þessum hópi eignaðist ég vini sem ég hef síðan átt allar götur síðan.

Úr viðtali við Þorvald Kristinsson, 1997

 

Back To Top