skip to Main Content

ÞOLDI EKKI UMRÆÐUNA

Mér finnst hin pólitíska umræða líka mjög þröng. Hún snerist mjög mikið um áþreifanleg réttindi en miklu minna um þörf okkar til að mynda tengsl hvort við annað og hommar og lesbíur áttu í rauninni ósköp lítil samskipti nema eftir að sól var sest og þá gjarnan yfir glasi. Þetta var eitthvað allt annað en það sem ég hafði vanist í Kaupmannahöfn og allt annað en það sem mig langaði til að gera. Mér þótti líka auðmýkjandi að kynnast umræðunni. Þ.e.a.s. umræðunni eins og hún sneri að okkur. Hér voru menn að diskútera það hvað við ættum að heita, til dæmis. Hinir gáfu okkur nöfnin hommi og lesbía og við tókum þau síðan upp og það sem einu sinni voru skammaryrði snerist síðan í höndum okkar og varð að einkunnarorðum sem eru á engan hátt lengur hlaðin tilfinningagildi. En á þeim árum var hommi sóðalegt orð. Það var alveg eins og að kalla mig öfugugga, attaníossa eða hvern fjandann það heitir og ég man að tillögur voru uppi í dagblöðum um að kalla okkur hóma og lespur. Það var einmitt þann daginn að ég hugsaði með mér: Nei! Nú kaupi ég mér far til Kaupmannahafnar með fyrstu vél. Ég nenni ekki að standa hérna í þessari lágkúru.

Úr viðtali við Þorvald Kristinsson, 1997

 

Back To Top