skip to Main Content

LESBÍA OG LEIKSKÓLASTJÓRI

Það voru nánast allir í felum. Alla vega opinberlega. Allir sem að unnu í skólastarfi, allir kennarar voru í felum af því að það var svo mikill ótti að ef þú ynnir með börnum að þá geturðu haft neikvæð áhrif. Allir voru viðbúnir að fá þá árás á sig. Og ég og vinur minn hann Einar Örn sem þá var organisti í Keflavíkurkirkju við ræddum stundum að það væri dálítið viðkvæmt starf […] kirkjan og krakkarnir. Þannig að kennarar héldu sig til hlés, rétt eins og við vorum ekki guði þóknanleg – þá var talið að við værum börnum ekki holl. Við gætum haft neikvæð áhrif á þróun og þroska barna og að samkynhneigðin væri náttúrulega bara smitandi það lá einhverstaðar undir niðri.

Ég hef lent í nokkrum slagsmálum, verið hent út úr íbúð oftar en einu sinni og verið argað á eftir mér á götu og það er svona, það er ansi margt sem ég hef prófað. En ég held þó að ég hefði getað starfað í friði sem leikskólastjóri ef ég hefði látið mér duga að vera prúð og pen. […] já og vera bara glöð með það að ég væri látin í friði. En að vera bæði lesbía og að auki kjaftfor og með öðruvísi hugmyndir. Og í mikilli baráttu gegn, gegn karlveldi, opinberum fyrirskipunum og fleiru að þá brotnar eitthvað. Þú getur ekki leyft þér hvað sem er. Og ég hef stundum talað um þetta sem, svona, sem svona já forgjöf, sem forgjöf, að þegar þú, eins og fyrir mig að vera lesbía, það gefur mér svolítið af mínusum og þ.a.l. get ég ekki leyft mér marga mínusa í viðbót áður en mótmæli byrja. Og þetta held ég að sé þetta óáþreifanlega misrétti sem er engan veginn búið. En já það var notað gegn mér að lokum að ég væri lesbísk, að ég væri að vinna með stúlkum.

[…] síðan endaði það með að, það var, ég og sveitarfélagið og fjölmiðlar, við rifumst um allt sem hægt var að rífast um og enginn skildi um hvað málið snerist. Enginn skildi. Var þetta af því að þetta væru ómögulegar uppeldisaðferðir? Eða hafði ég brotið reglur bæjarins? Voru fjármálin í lagi? Ég veit ekki hvað var ekki tekið upp. Og það er einkenni misréttismála – þegar moldinni er þyrlað upp og enginn veit lengur um hvað málið snýst, þá er gott að vita AHA! Hér er eitthvað undirliggjandi. Og í mínu tilviki þá var það að mér var bannað að vinna með stúlkum og ég hafði birt myndir úr starfi af börnum, af stelpum, þið vitið svona í fjarlægð, í vatnssulli úti naktar, þetta var talið mjög óheppilegt og fleira og fleira og þetta endaði með því að á fjölmennum fundum var kynhneigð mín til umræðu, útlit mitt, hvort ég væri nógu kvenleg eða ekki og þetta er, þetta er eitthvað sem er ekkert hægt að lýsa.

Ég skrifaði einhverntímann um þessa reynslu og ég hélt að ég væri búin að vinna úr þessu en ég endaði sitjandi við tölvuna og tárin streymdu. Þetta eru, þetta eru tímar sem er ekki hægt að lýsa með nokkrum hætti. Já, það var vandamál að ég væri lesbía. Þess vegna leyfðist mér minna. Þess vegna, að ég færi af stað með einhverjar nýjungar, umdeildar, samþykkti ekki ríkjandi kerfi og fleira, ég hafði ekki efni á því. Og einhvern tímann sagði við mig háttsettur aðili inni í þessu kerfi, auðvitað hlaut að koma að því að einhver yrði með tilraunir í kynjaskiptu starfi og slíkt en þú áttir að vita af öllum að þú mættir ekki vera sú manneskja. Og það er þetta sem ég á við. Við fáum mínus ennþá, lesbíur og hommar, og við þurfum á einhvern hátt að vinna það upp.

Margrét Pála Ólafsdóttir, 2017

Back To Top