STOFNUN ICELAND HOSPITALITY
Þetta var gert algerlega eftir því sem núna heitir flatur strúktúr. Sem sagt eftir þessu systemi að það er ekkert verið að setja ofan á hausana á fólki eitthvað félag og segja nú gerum við þetta svona og svona og svona — heldur bara hér erum við og hvað viljum við gera og hvað finnst fólki, allir hafa sinn fulla rétt til að segja sitt og svo framvegis og svo framvegis. Og þá var náttúrurlega rætt hvað þetta ætti að heita og hvað ætti að gera, áttum við að stofna félag, hvað á að gera. Og það er maður sem heitir Bob Road og gaf út í Ameríku eitthvað svona gay-guide sem hét the Gay Yellow Pages. Og Trixie, Guðmundur Sveinbjörnsson, vinur minn, hafði samband við þennan Bob Road og sagði honum hvað væri að ske hérna og hvað við gætum gert. Þessi Bob Road benti honum á það að það væru fleiri lönd sem að væru svona undertrykkelse eins og er sagt. Í Ísrael t.d. mætti þetta alls ekki og þar hefðu þeir búið sér til félagsskap sem hét Israel Hospitality — það er að segja fengið sér pósthólf og auglýst í gay pressunni að það væri hægt að komast í samband við fólk. Það er sem sagt gestrisni, sýna fólki svona gestrisni, hjálpa því þegar það kemur að koma þeim í kontakt við fólk og svona lagað. Við gripum þetta alveg hrátt og bjuggum til Iceland Hospitality. Fengum okkur pósthólf uppi við Sund einhvers staðar því Trixie bjó í Efstasundi. Og við bjuggum til fréttatilkynningu eða bréf bæði á íslensku og ensku og sendum íslensku blöðunum þetta þar sem sagði ósköp pent að þetta væri til upplýsingar um þessa hluti og svo framvegis. Það var gjörsamlega þögn um þetta í blöðunum. Enginn íslenskur fjölmiðill brást við á neinn hátt.
Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2005