skip to Main Content

FYRSTU FUNDIRNIR

Þegar ég tala um þetta þá er eins og ég sjái gay-liðið bara að skemmta sér. Eins og einhverju eilífu fylleríi. En tilfellið er náttúrulega að ef maður ætlar að vita hvað þetta gay-fólk er þá sést það náttúrulega ekki nema í sínum frítíma. Og það er helst á kvöldin og um helgar, þetta er náttúrulega vinnandi fólk eins og hvað annað. — Sem þýddi það að maður hitti þetta fólk eiginlega eingöngu þegar það var að skemmta sér. Og þetta gekk svo sem ágætlega, það var töluverður hópur af fólki sem kom alltaf niður á Hótel Borg. The rear bar, ég held að hann hafi verið í Spartacus frá upphafi, svei mér þá. Það voru nokkrir skemmtistaðir í bænum, þá var enginn bjór, og þess vegna engar litlar krár heldur stórir staðir á hótelunum og einhverjir tveir staðir eins og Klúbburinn við Lækjarteig þar sem, jújú, það voru þarna eldhús og allt saman, en þar var aldrei framreiddur matur, en það var skilyrði til að hafa vínveitingaleyfi. Svona risastórir staðir. Og maður hitti þessa stráka og það voru bara strákar, það voru engar lesbíur, þær bara sáust ekki í neinu opinberu samhengi, þær sáust aldrei. Sjálfsagt hafa þær verið til, ég geri ráð fyrir því. En ég sá þær ekki. Og þetta var sem sagt ‘74. Við förum náttúrulega út að skemmta okkur og við [Reynir Már Einarsson] búum þarna í miðbænum með stóra og fína íbúð og það segir sig sjálft að þegar ball var búið í Borginni á föstudegi eða laugardegi, föstudögum klukkan eitt, laugardögum klukkan tvö, þá er bara strollað upp á Laugaveg, upp á hæð til okkar í partí og þar var afskaplega skemmtilegt og allt í lagi með það. En þegar þetta fór að ganga svona mánuð eftir mánuð og svo að segja ár eftir ár þá fór manni að finnast þetta dálítið undarlegt að hitta þetta fólk aldrei nema meira og minna undir áhrifum áfengis. Ekki að það væri fullt, heldur alltaf í alltaf í þessu sambandi, úti að skemmta sér. Hittist aldrei á öðrum tímum dags eða neitt.

Það voru aldrei nein samtöl um hlutina eða neitt svoleiðis lagað. Ég hafði svo sem kynnst þessu í Þýskalandi líka, í Köln var komið það sem hét Gay liberation front og ég fór þarna á tvo, þrjá fundi og það var einhvers staðar í Lúthersku safnaðarheimili. Og auðvitað var þetta í umræðunni eins og þetta heitir nú orðið. Allt þetta gay liberation. Ég fór einu sinni til Bochum einhvern tímann á hátíð, partídæmi sem gay liberation samtökin í nokkrum borgum höfðu efnt til saman, þetta var þó orðið það þroskað áður en ég kom heim. Sem sagt, maður sá að þetta var svolítið aftarlega á merinni hérna heima og það var það sem raunverulega vakti undir niðri, hvort væri ekki möguleiki að koma þessu einhvern veginn á koppinn hér. Fyrsta hugsunin var þá að fá fólk til að koma og hittast, ófullt, einu sinni að degi til og við fórum að spyrja fólk um þetta og jú jú, það voru margir sem tóku vel í þetta og sögðu já, þetta væri nú eiginlega alveg nauðsynlegt. En svo fóru að koma hin og þessi komment og það er nú svo skrýtið að það er hlustað meira á úrtölufólkið en þá sem vilja gera eitthvað. Það eru alltaf bremsararnir, það hefur alltaf meiri áhrif heldur en þeir sem vilja gera eitthvað, það er svona tregðulögmál í gangi. Og það komu komment eins og ég þarf nú ekki að fara í neinn félagskap til að ná mér í mann. Og man ég eftir: kemur Gulli? spyr einhver. Ég ætla að vona það, ég ætla að tala við hann, ég kem ekki ef hann kemur. Svona asnagangur. Og við létum þetta ekkert stoppa okkur og fólk kom þarna og ætli við höfum ekki hist alla vega tvisvar, þrisvar sinnum heima hjá okkur á Laugavegi 28. Þá komu í kringum 15 manns og settust niður og töluðu saman og var einhugur um það að það þyrfti að gera eitthvað í þessu. Það er ekki hægt að fara svona með sig. Þó manni líði persónulega ekki illa þá væri þetta allt að því skammarlegt að vera ekki nokkurn veginn á eðlilegum nótum gagnvart samfélaginu. Fólki ætti ekki að líðast að láta svona.

Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2005

Back To Top