BÓKSTAFSTRÚARHÓPAR
Ég hef löngum sagt að við urðum vinsælt skotmark um tíma fyrir bókstafstrúarmenn, það er að segja fyrir hatursfulla hópa sem vilja finna sér óvin, því það er svo erfitt að sameina fólk um jákvæða hluti en það er svo auðvelt að sameina fólk í æsing og hita gegn einhverju. Það er það einfaldasta sem til er og þessir bókstafstrúarhópar hafa notað þetta einfalda trix til að fjölga í félagatalinu sínu að fá fólk á móti, galdrabrennur trekkja alltaf og hafa alltaf gert. Við erum vinsæl, við erum áberandi, við erum að lyfta okkur á ákveðinn stað, við erum að fara í gegn með ákveðin mál, grundvallarbreytingu í samfélaginu sem er viðurkenning á okkar þörfum og okkar tilvist og okkar tilfinningafrelsi. Þess vegna hafa þeir farið gegn okkur. Fyrir öld var biblían notuð til að lemja konur með enda eiga konur að þegja á samkomum, þær eiga að bera tákn um yfirráð karlsins á höfði sér — sem er bannað að skera hár sitt svo framvegis etc etc. Biblían er konum miklu verri en samkynhneigðum en í dag er það ekkert vinsælt að vera með kvenfyrirlitningu og menn þegja þótt þeir hafi hana margir. En við urðum vinsælt skotmark til þess að geta sameinað lýðinn um eitthvað, gegn einhverjum óvini.
Margrét Pála Ólafsdóttir, 1997