skip to Main Content

SORGLEGUR UNDIRTÓNN Í GLEÐINNI

Ég held að mjög margt gay fólk, lesbíur og hommar á þeim tíma hafi notað áfengi sem kvíðastillandi lyf. Og áfengisneyslan að því leyti þjónað allt öðrum tilgangi hjá okkur en venjulegu fólki. Þetta var ekki bara til að gera sér dagamun heldur til þess að fá sér kjark og til að slá á vanlíðan líka. Þetta var á tímabili svolítið sorglegt ástand. Það var mikil neysla í gangi. Maður sá þetta mikið hjá hommunum að þeir þurftu að drekka í sig kjark til þess að hafa þor í að nálgast aðra karlmenn og til að nálgast bara vinskap og félagsskap sinna líka. Það sama gilti með lesbíurnar. Það var ansi mikið djamm og það var auðvitað líka skemmtilegt félagslíf í kringum það en oft á tíðum var þetta einum of.

Stundum þegar ég hugsa til baka finnst mér eins og hommarnir hafi á þessum tíma verið deyjandi úr alnæmi og lesbíurnar alltaf blindfullar og allt transfólkið að reyna að drepa sig. Þetta var bara erfiður tími. En auðvitað var það ekki alveg svo slæmt, alls ekki. En t.d. þetta fáa transfólk sem kom á vettvang átti mjög erfitt líf. Lesbíurnar sem margar höfðu kannski átt fyrra líf voru í baráttu með að halda börnunum sínum. Hommarnir margir hverjir að glíma við rosalega mikil veikindi. Þannig að það var alltaf einhver sorglegur undirtónn í gleðinni. Þess vegna held ég að við höldum öll svona mikið upp á ABBA. Af því að ef maður hlustar á ABBA þá eru þetta rosalega glaðleg lög við rosalega sorglega texta. Þannig var Samtakalífið og þetta gay líf á Íslandi á þessum tíma. Rosalega jolly og hresst á yfirborðinu og oft mjög gaman en einhver mjög dapurlegur og dramatískur undirtónn.

Úr viðtali við Lilju Sigurðardóttur 2017.

 

Back To Top