skip to Main Content

BREYTING Á SAMTÖKUNUM

Af hverju eigum við að vera í felum? Af hverju getum við ekki talað upphátt um okkar hluti? Af hverju getum við ekki farið í fjölmiðla? Af hverju erum við að reka félagsmiðstöð sem er aðallega ætluð, já sem er að einhverju leyti ætluð meira fyrir djamm heldur en pólitískt starf og samræður og baráttuaðferðir og fleira og fleira. Og þess vegna er það þegar ég tek við sem formaður þá breytast mikið áherslur, líka tímanna tákn, en það að leggja af stað inn í mannréttindabaráttu og segja djamm og skemmtilíf og fleira, við verðum að ætlast til að samfélagið veiti okkur það eins og öðrum og breytum strategíunni. Hættum að samþykkja það að það sé talað um okkur eins og kynlíf í svefnherbergi því það er trúlegast ekkert merkilegra hjá okkur heldur en nokkrum öðrum, en tölum um líf okkar, réttindi, virðingu og annað slíkt. Og allt þetta ferli frá því að vera í myrkrinu í Bolholtinu að paufast upp stigann og fara með Samtökin á Laugaveg var sérdeilis merkilegt ferli og það eina sem ég sá eftir þegar ég lét af formennsku, þegar við erum komin og búin að kaupa á Laugaveginum, það er það að risavaxið skilti með merki Samtakanna sem ég var búin að panta utan á húsið, það var afpantað af þeim sem tók við af mér af því að það þótti of dýrt. Það er það eina sem ég grét en ég lagði allt í mannréttindabaráttu, sýnileika, opna umræðu, heiðarleika, bara setja orð á hlutina, ræða, það er eina leiðin til þess að mál vinnist og til þess að skilningur á milli allra aukist. Bara segðu hlutina eins og þeir eru, segðu satt, þorðu að tala upphátt, komdu fram, finndu kjarkinn þinn og stundum þurfti ég svo sannarlega að draga andann djúpt og leita að kjarkinum mínum áður en ég tók einhvern slaginn. En að mínu mati þá var þetta, þá var þetta tímabil sem að náði að þjappa meirihluta þjóðarinnar, meginþorra fólks með okkur. Og það sáum við bæði þegar við fögnuðum í Borgarleikhúsinu, þegar við héldum mannréttindahátíðina okkar í Óperunni, þegar við kölluðum í fyrsta skipti til Gay Pride á Lækjartorginu, við vorum komin með meginþorra þjóðarinnar með okkur.

Back To Top