skip to Main Content

BRÉFUNUM VAR EKKI SVARAÐ

Iceland Hospitality skildist mér, var eitthvað sem ég kom aldrei nálægt en menn stóðu hér að, einhverju bréfahólfi og auglýst um allan heim. En [þeir] svöruðu ekki bréfum fann ég út einn dag og ég, ég varð foxillur. […] Til að hafa mig rólegan, þá var mér boðið, var ég boðaður á fund hjá þeim haustið ’77 þegar ég var að flytjast til Íslands til þess að fara að vinna í þessum málum, því mér fannst ekkert gerast. Og það var kaffisamsæti. Ég beið eftir að fundur yrði settur […], þarna sátu menn, ábyggilega tuttugu strákar, voru, og ræddu um, ég held kannski þetta hafi verið á mánudegi eða þriðjudegi, sem sagt afrek helgarinnar sem mér kom náttúrulega ekkert við, ég, svo varð mér að orði „mikið ofboðslega eruð þið ópólitískir“. Og þá sló þögn á hópinn. Ég var beðinn um að standa upp og segja hvað í ósköpunum ég átti við? Og ég geri það og það varð til þess að það varð, þá var sett í gang, eða þarna á þessum fundi, skipulagt einhverskonar starf. Þetta var í september man ég.  Og við ræddum um og skiptum dálítið hópnum og við þurftum að gera þetta, þetta og þetta og það fengu allir sín verkefni, svo fór ég af fundinum og svo kom dagurinn sem við ætluðum að hittast aftur, ég fór að hringja, ég varð aldrei var við þessa menn aftur í skipulagðri vinnu, framsetningu á því sem þurfti að gera. Og þá sá ég fram á það, þeir voru alltaf uppteknir af því að fara í bíó eða voru að gera eitthvað allt annað sem að var meira spennandi heldur en að sinna þessu.

Síðan var það sko að ég komst yfir lykilinn að þessu pósthólfi og öll gögnin fyrir slysni. Og þar sá ég bara hrúgu af bréfum sem hafði aldrei verið svarað og það var margt neikvætt við þessa starfsemi. Sem var náttúrulega ekki af illum huga eða ásetningi þannig heldur var þetta bara kæruleysi og mér fannst þetta ekki geta gengið upp. […] Þegar ég fór að vinna að stofnun Samtakanna 78, því að það gerði ég bara einn, þá bauð ég stráknum sem að var með lykilinn og hafði lánað mér lykilinn að hólfinu og öll gögnin, það að þetta yrði bara sett inn í Samtökin ’78 […] hagkvæmast var náttúrulega að, að hérna sameina þetta. Og ég lét einn strákinn sem var enskur, mjög duglegur og fær penni semja svarbréf, svona standard svarbréf og senda öllum sem að höfðu skrifað inn í þetta pósthólf.

Úr viðtali við Hörð Torfason, 1997

Back To Top