skip to Main Content

HÉLDU AÐ SAMTÖKIN VÆRU KYNLÍFSKLÚBBUR

 

Grundvallaratriði er þetta sem ég nefndi við þig áðan með markaðssetningu á ákveðinni ímynd fyrir Samtökin ‘78. Gott og vel, fólk leit á okkur sem einhvern hóp þar sem hinar kynlegu hvatir söfnuðust saman, fólk sem ætti það eitt sameiginlegt að elska sama kyn. Sumir litu á þetta sem einhvers konar kynlífsklúbb. Það var enn þá verið að hringja niður í Samtök — hjón að panta einhvers konar tilbreytingu í kynlífið, konan hafði alltaf haft einhvern áhuga á stelpum, hvort þau gætu fengið eina bara bæði í bólið til sín og allt þetta. Þetta var enn þá að gerast — að fólk hélt að Samtökin ‘78 væru kynlífsklúbbur af einhverju tagi af því að við sameinuðumst um það að við hefðum aðra kynhneigð heldur en meirihlutinn og að fólk áttaði sig á því og lærði það að kynhneigð er allt annað en kynhegðum. Kynhegðun er allt annað mál bæði hjá samkynhneigðum og gagnkynhneigðum. Kynhneigðin sem við sameinumst um er einfaldlega á þeim grundvelli að okkur megi ekki mismuna á grundvelli hennar, að við krefjumst þess tilfinningafrelsis sem er grundvallarmannréttindi. Það tilfinningafrelsi að elska þann sem við kjósum og gjalda ekki fyrir það heldur að njóta sama réttar og aðrir þegnar samfélagsins að við þurfum ekki að sleppa sjálfgefnum réttindum sem við fæðumst með inn í þetta samfélag.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Back To Top