skip to Main Content

EKKI Í FELUM Í REYKJAVÍK

Ég flutti aðallega vegna þess að ég var ástfangin og ákvað það að sú manneskja sem ég var ástfangin í hún vildi örugglega ekki flytja til Vestmannaeyja. Hefði hún verið tilbúin til að flytja til Vestmannaeyja þá held ég að ég hefði ekki farið héðan á þeim tíma. Og ég sakna þess að mörgu leyti að hafa farið héðan vegna þess að ég held í rauninni að svona bæjarlíf eigi betur við mig heldur en Reykjavik þó ég búi í Reykjavík og muni gera það eflaust það sem eftir er. En ég held að á þeim tíma hafi kannski ekki allir treyst sér til þess að flytja út á land og fara að búa í sambúð sem samkynhneigðir. En það var allt í lagi í Reykjavík. Þar er alltaf hægt að fela sig ef fólk vill.

Ég fór ekki til að fela mig, ég hélt áfram að starfa með Samtökunum og held ég hafi verið fyrsta konan sem fór í mótmælagöngu með Samtökunum 1. maí þegar við fengum ekki að fara inn í ASÍ göngu. Þá labbaði ASÍ gangan hjá Laugardalshöllinni og við fórum nokkur og vorum með mótmælaspjöld og stóðum fyrir utan og biðum eftir göngunni af því að við fengum ekki að vera með inni í henni og vorum með okkar borða og ég held að ég hafi verið eina konan í þeim hópi. Þannig að ég held nú ekki að ég hafi farið til Reykjavíkur til að fara í felur. Og ég held að það eigi ekki fyrir mér að liggja að fara í felur.

 

Stella Hauksdóttir 1998

Back To Top